144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er auðvitað alltaf erfitt þegar ræða á svona mál og þess vegna væri ágætt að fá fyrirætlan forseta um hvernig hann hyggst haga þessum fundi, hvort við fundum þá hér inn í nóttina og hvort nefndarfundur verði boðaður snemma í fyrramálið o.s.frv. Hvernig forseti sér fyrir sér framvindu þessa máls? Ætlar forseti að gera tilraun til að klára það hér um helgina og funda þá bæði laugardag og sunnudag ef þess gerist þörf, og boða jafnvel aftur þingfund á sunnudegi, eða hvernig sér hann það fyrir sér?

Mér finnst líka mikilvægt að hafa það í huga að hér er verið að taka réttinn af ótrúlega mörgum stéttum, það eru 17 aðilar þarna undir og hér hefur verið rætt um rökin varðandi heilbrigðismálin. En það eru margar aðrar stéttir þarna undir sem verið er að taka réttinn af með þessu nánast ótímabundið eins og hér hefur verið rakið.

Virðulegi forseti. Það er sársaukalaust af minni hálfu að vera hér fram í kvöldið. Ég tek hins vegar undir það að mér finnst ekki skynsamlegt að ræða svo mikilvæg málefni (Forseti hringir.) þegar ekki er hægt að horfa (Forseti hringir.) framan í fólk í dagsbirtu og semja við það. (Forseti hringir.) Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að fá fram hjá forseta hvernig hann sér þetta fyrir sér.