144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ætli þessi umræða sé ekki nokkuð lýsandi fyrir þann stjórnunarvanda sem hér er við að etja? Ég verð að lýsa hryggð minni yfir því að þetta atriði skuli ekki hafa verið rætt við þingflokksformenn eða í forsætisnefnd áður en til þessa mikilvæga fundar var boðað, hversu lengi hann ætti að standa, hvaða áfanga ætti að klára við umræðuna vegna þess að sannarlega mundum við mörg vilja greiða fyrir því að málið kæmist til nefndar og kæmist í efnislega umfjöllun. Hitt væri snöggtum erfiðara, að styðja að það væri hér til hraðafgreiðslu inn í nóttina.

Mér sýnist þess vegna að enn einu sinni sé stjórnarmeirihlutinn að tvístra mönnum í atkvæðagreiðslu og efna til algerlega óþarfra deilna með því einfaldlega að ræða ekki eins og maður við mann um þann vanda sem uppi er, þau verkefni sem fyrir höndum eru og hvernig sé best í sameiningu að leysa úr þeim. Ég kalla eftir því að forseti skýri (Forseti hringir.) hvort heimildin fyrir kvöldfundi er bundin við 1. umr. Þá væri hægt að sýna því vissan skilning. Á ef til vill líka að fara fram 2. og 3. umr. á kvöldfundi?