144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í máli mínu að það væri ekki við hæfi að tala af léttúð um mál sem þetta. Ég er hér með ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar þegar sett voru lög á verkfall þar sem hann styður að farin sé sú leið að setja á laggirnar gerðardóm, það sé skynsamlegra en að höggva á hnútinn eins og fyrrverandi ríkisstjórn gerði í því tilviki. Við leggjum hér til þá leið að fresta verkfalli, gefa fólki tækifæri á að tala saman og innan gerðardómstímans er jafnframt gefinn tími og tækifæri til að deiluaðilar geti fundið lausnir á einstaka úrlausnarefnum eða deilunni í heild sinni. Ég tel að þetta sé skynsamleg leið, og þessi farvegur fyrir umræður um þetta mál er á þessum stað.