144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekkert að tala af léttúð. Það litar afstöðu mína til þessa máls að það hefur ekki verið orðið við sjálfsagðri kröfu minni hlutans á þingi um að ræða kjaramálin og mjög augljóslega alvarlega stöðu á vinnumarkaði undanfarnar vikur, heldur hafa verið ágreiningsmál á dagskrá sem hafa verið til þess eins fallin að hleypa öllu upp í loft. Það hefur verið rauður þráður í málflutningi okkar í minni hlutanum að þessi mál þyrfti að ræða. Við höfum ekki séð neinar hugmyndir frá ríkisstjórnarflokkunum um það hvernig ætti að leysa þessi mál, deiluna við BHM þar sem ríkið er aðili að samningunum, t.d. engar hugmyndir um að fara inn í lánasjóðskerfið eða húsnæðiskerfið. Þar er allt strand, fullkomið andleysi, fullkomið fálæti. Nú kemur í ljós að það er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem mælir fyrir eina málinu varðandi kjaraviðræður á þessu þingi. Það er um að setja lög og hann hlýtur þá að fara með (Forseti hringir.) þessi mál. Það er spurning hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra líður með það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hér að mæla fyrir lögum á heilbrigðisstarfsfólk. Ég hlýt að spyrja hann: Finnst (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra þessi mál hafa verið nægilega rædd og undirbúin á þingi á þessum þingvetri til að það sé réttlætanlegt að menn hrópi húrra fyrir þeim aðgerðum sem hér eru boðaðar?