144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki frestun á verkfalli að taka af mönnum eina vopnið sem bítur, verkfallsréttinn, og segja að menn megi að vísu semja í hálfan mánuð. Með hverju? Með berum höndunum með engan verkfallsrétt? Þetta er orðaleikur. Og það er mótsögn í einmitt umfjölluninni um skilyrðin sem þurfa að vera uppi þegar segir í greinargerð frumvarpsins á bls. 7:

„Samkvæmt framansögðu verða þrjú meginskilyrði að vera til staðar til þess að skerða megi verkfallsrétt og samningsfrelsi launþega. Skerðing verður að byggjast á lögum“ — en byggir skerðingin á lögum þegar það er komið í hendur nefndar á vegum Hæstaréttar að ákveða hversu lengi, jafnvel í hversu mörg ár, þessir hópar verði án samnings- og verkfallsréttar?

Svo vil ég biðja hæstv. ráðherra að útskýra 3. gr. Hverju sætir það að hún er öll á forsendum annars deiluaðilans, þ.e. ríkisins, listar þau rök sem ríkið hefur haft opinberlega í frammi fyrir því að ekki sé hægt að mæta kröfum háskólamanna um að tillit sé tekið til menntunar eða (Forseti hringir.) námslánakostnaður þeirra metinn, en forsendur ríkisins allar tíundaðar? Stenst þetta líka?