144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Bara varðandi það að ríkið fari alltaf að öllum ýtrustu kröfum, við vitum að vitanlega eru svona alhæfingar ekki það sem þetta mál snýst um. Þetta mál snýst um forgangsröðun. Hvað sagði Framsókn um forgangsröðun fyrir kosningar? Hún var spurð um starfsmannaflótta og lengri biðlista eftir rannsóknum og aðgerðum sem væru vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Hvernig hyggst þinn flokkur bregðast við þessum vandamálum? var spurt.

Ég ætla að lesa svarið fyrir hæstv. ráðherra og spyrja hvort hann sé ekki sammála:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Vandamálið er að biðlistar eftir rannsóknum hafa hrannast upp af því að ríkisstjórnin er búin að vanrækja það að skapa kringumstæður og ramma fyrir miklu farsælli gerð kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur vanrækt það að setja í forgang skattfé sem er til staðar. Það er til staðar svigrúm í samfélaginu fyrir það, en biðlistarnir hafa hrannast upp. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við sínu eigin vandamáli sem hún skapaði? Jú, (Forseti hringir.) með því að setja lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna sem munu margir hverjir fara. Það skapar hættuástand í landinu. (Forseti hringir.) Er það að draga úr brotthvarfi innan heilbrigðisstéttanna eins og var lofað að ætti að koma í veg fyrir með auknum fjárútgjöldum?