144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef komið inn á það í þessum stóli oftar í dag að við höfum ítrekað kallað eftir því á undanförnum rúmum tveimur mánuðum menn komi hér og ræði við okkur um stöðuna á vinnumarkaði. Hefur verið orðið við því? Nei. Hér inni hefur legið beiðni frá okkur um munnlega skýrslu frá forsætisráðherra síðan 19. maí. Hefur henni verið svarað? Nei. Og menn leggja ekki einu sinni í það að setja fram einhverja starfsáætlun til þess að koma sér undan því að ræða þessi alvarlegu mál á Alþingi.

Ég vil aftur þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að benda á að viðmælandi okkar um kjaramálin sé fundinn og það sé hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar.

Það er rétt að hér er um að ræða málaflokka eða stéttir sem heyra undir fjóra mismunandi ráðherra. Hefði þá ekki verið eðlilegra að forsætisráðherra hefði haft manndóm í sér til að standa hér of flytja þetta mál? Jú, það hefði verið eðlilegra. Í staðinn er atvinnuvega- og landbúnaðarráðherra sendur hingað í þeim erindagjörðum og hæstv. forsætisráðherra er horfinn úr þingsal eins og fyrr, það er allt eins og það á að vera. Forsætisráðherra lætur ekki sjá sig hér, hann á ekki samtal við okkur um eitt einasta mál þannig að það er þá spurning hvort við í þingflokki jafnaðarmanna leggjum ekki til að við breytum beiðni okkar um munnlega skýrslu um kjaramálin og beinum henni til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í staðinn. Það er óskandi að hann verði við henni.

Þessi staða er algjörlega óviðunandi. Ef við horfum á forsöguna, hvað er búið að vera að gerast hér síðastliðna mánuði?

Á síðasta ári voru gerðir svona svokallaðir friðarsamningar við þessa hópa. Nýttu menn tímann vel til þess að eiga samtal við þessa hópa um kjarabætur, sem ég tel að þeir eigi rétt á? Nei, tíminn var ekki notaður til þess heldur ákváðu menn að afsala sér samningsumboðinu til Samtaka atvinnulífsins, þar af leiðandi bæru þeir ekki ábyrgð á þessu. Þegar verkföllin skullu á kölluðum við eftir því í þessum sal að menn kæmu hingað og ræddu þessa alvarlegu stöðu vegna þess að aðkoma Alþingis getur verið með margvíslegum hætti. Hún getur verið með þeim hætti að við getum tekið ákvarðanir um að flytja mál sem bætt geta lífskjör þessara hópa, sem er það sem þeir kalla eftir. Við getum hér tekið ákvarðanir um stefnu í þessum málum sem liðkað getur fyrir kjarasamningum. Gerðu menn það? Nei, þeir gerðu það ekki. Höfðu menn áhuga á því? Nei, þeir höfðu það ekki.

Svar þessarar ríkisstjórnar við ákalli okkar um umræðu um þessi mál í þingsal er að koma fram með frumvarp sem setur lög á vinnudeilur, lög á þessa hópa og rétt þeirra til þess að mótmæla kjörum sínum með þeim hætti sem þeir hafa gert.

Frá því að verkföllin hófust hér í byrjun apríl höfum við verið að kalla eftir því að þessi ríkisstjórn segði okkur með hvaða hætti hún ætlaði að nálgast þau mál. Okkur var sagt af sendisveinum ríkisstjórnarinnar í þingsal að það mál yrði ekki leyst í sölum Alþingis. Hvað gerir ríkisstjórnin núna? Hún réði ekki við verkefnið og kemur þess vegna með málið hingað inn og ætlar að troða því ofan í kokið á okkur að sett verði lög á þessar deilur af því að hún ræður ekki við verkefnið. Ræða hæstv. utanríkisráðherra undirstrikaði það að menn ráða ekki við verkefnið.

Þegar menn ráða ekki við verkefnin fela þeir sig á bak við einhverja aðra. Hæstv. ráðherra, kjaramálaráðherra, fylgir því hér eftir með því að fela það, með því að fara í einhvern slag við fráfarandi ríkisstjórn. Það má þá benda þessum ágætu mönnum á það, og kannski ætti hv. þm. Vigdís Hauksdóttir að koma hér og endurtaka það, að hér voru kosningar vorið 2013, en það virðist vera að andúðin á fráfarandi ríkisstjórn sé þessu fólki svo djúpstæð að menn komast ekki upp úr því fari. Þar af leiðandi geta þeir ekki markað stefnu fyrir land og þjóð, framtíðarstefnu, einhvern leiðarvísir um hvert þeir eiga að fara af því að þeir eru of uppteknir við að vinda ofan af aðgerðum fráfarandi ríkisstjórnar, eins og hér hefur verið nefnt. Hverjir líða fyrir það? Það eru þeir hópar sem þessi ríkisstjórn hefur átt að vera að tala við nú mánuðum saman. Það eru þeir sem líða fyrir að ríkisstjórnin skuli ekki geta komist upp úr þessum hjólförum. Þess vegna erum við í þessari stöðu.

Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hennar góðu brýningu í andsvari við hæstv. ráðherra, það gengur ekki að ætla endalaust að setja ábyrgðina á stöðugleikanum í efnahagslífinu á herðar fámennum stéttum, þeim sem lægstar hafa tekjurnar í samfélaginu, stéttum kvenna í heilbrigðisgeiranum. Það gengur ekki þegar menn senda síðan alltaf þau skilaboð til baka: Við getum lækkað skatta, vinir mínir. Við ætlum að lækka skatta á ykkur sem hæstar hafið tekjurnar. Það er það sem menn hafa verið að gera hér. Stjórnarstefnan hefur verið þessi: Losum okkur við tekjur frá þeim sem hæstar hafa tekjurnar, losum ríkissjóð við tekjur frá þeim sem greiða auðlegðarskatt, losum ríkissjóð við tekjur frá þeim sem greiða veiðigjöld, losum ríkið við tekjur frá þeim sem hæstar hafa tekjurnar í þessu landi og sækjum tekjur með því að auka gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu og spörum við okkur tekjur með því að halda lægstlaunuðu hópunum hjá hinu opinbera niðri. Það er stjórnarstefnan. Þessari stjórnarstefnu mótmælum við og við erum ekki til í að taka umræðuna niður á slíkt plan. Og fyrst við tölum um umræðuna, hæstv. ráðherra, þá er þessi umræða á lágu plani af hálfu þessarar ríkisstjórnar, að ætla að varpa ábyrgðinni á þessa hópa. Eins og staðan sé þannig að það hafi eingöngu verðbólguáhrif ef tekjur lægstlaunuðu hópanna hækka, kvennastéttanna í heilbrigðisgeiranum, en ekki þegar tuga milljarða arðgreiðslur koma úr sjávarútvegsfyrirtækjum eða þegar menn sleppa hér tugum milljarða í auðlegðarskatt eða lækka skatta á þá sem hæstar hafa tekjurnar. Nei, það er utan verðbólguáhrifa. Eða þegar menn hækka laun þeirra sem hafa hæstu tekjurnar í þessu landi eða leggja til bankabónusa. Nei, nei, það er allt saman utan við verðbólguna, það hefur ekki áhrif á verðbólguna. Eingöngu er talað um verðbólgu og verðbólguáhrif af hálfu þessarar ríkisstjórnar og efnahagslegan stöðugleika þegar verið er að tala um tekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar eða þá kvennastétta í heilbrigðisþjónustu. Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Slíkur málflutningur er á lágu plani.

Virðulegi forseti. Að lokum þá verð ég að segja að þegar við horfum á þetta mál er líka alveg með hreinum ólíkindum, eins og komið hefur fram í máli ágætra þingmanna sem hér hafa talað í dag, og mjög sérkennilegt hvernig menn ætla að nálgast þetta mál, að ætla að skipa gerðardóm, eða þeir kalla það gerðardóm að biðja Hæstarétt um að skipa þriggja manna nefnd. Það er ekki gerðardómur. Það er ekki boðlegt gagnvart þeim sem standa í þessum deilum. Það er heldur ekki boðlegt að ætla eingöngu að fara aftur til 1. maí. Auðvitað verður allt þetta ár og það sem gerst hefur í þessari lotu kjarasamninga að vera með. Auðvitað. Menn geta ekki komið sér hjá því.

Síðan verð ég líka að segja að þegar verið er að taka réttindi af mönnum ótímabundið geta menn ekki gert það með þessum hætti. Við munu mótmæla því harðlega þegar málið kemur til nefndar.

Hér hrópaði fjármálaráðherra fram í í dag að það væri hættuástand á spítölunum. Slíkt hefur gjarnan verið kallað fram í til okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem erum andsnúin þessari lagasetningu. Þá verð ég að spyrja: Hvað með sjúklinga framtíðarinnar? Vita menn hvaða afleiðingar þessi lagasetning og þessi aðgerð mun hafa á heilbrigðiskerfið til lengri tíma? Skammsýnin í þessari nálgun er svo mikil að menn eru ekki tilbúnir að horfast í augu við að við eigum eftirsótt heilbrigðisstarfsfólk. Við eigum heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða sem getur starfað í sinni grein hvar sem er í heiminum. Við erum þegar búin að missa allt of marga til Norðurlandanna. Ég er hrædd um að þegar menn ganga svona fram gagnvart þessum hópum, þessum mikilvægu hópum í samfélagi okkar, muni það aukast, sem mun hafa langvarandi og skaðleg áhrif á heilbrigðiskerfið. En þessari ríkisstjórn virðist fyrirmunað að horfa til lengri tíma eða horfa á stóru myndina. Þess vegna erum við í þessari stöðu núna, af því menn ætla einhvern veginn að reyna að redda sér með flumbrugangi með því að koma með þessa lagasetningu hér inn til að reyna að breiða yfir algert getuleysi sitt í þessum málum á undanförnum mánuðum.

Þegar við horfum til þeirra hópa sem hér óska eftir því að kjör þeirra verði bætt verðum við líka að horfa á allan aðbúnað þeirra. Það er ekki hægt að standa hér og halda því fram að það hafi aldrei verið sett meira í heilbrigðiskerfið þegar ljóst er að við erum með úr sér gengið húsnæði, við erum með allt of gömul tæki, við höfum ekki efni á sjálfsögðum tækjum fyrir hátæknisjúkrahús nútímans eins og jáeindaskanna eða á öðrum slíkum tækjum sem nauðsynleg eru hverju sjúkrahúsi í nútímasamfélagi. Þá geta menn ekki sagt að hér sé allt í lagi. Það er heldur ekki hægt að segja að hér sé allt í lagi í heilbrigðismálum þegar við horfum framan í það að 900 hjúkrunarfræðingar munu fara á eftirlaun á næstu árum og ekki er fyrirséð að við náum að fylla það skarð. Það horfir enginn á heildarmyndina. Það á bara að redda þessu máli núna til þess að reyna að skera ríkisstjórnina úr snörunni.

Ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif þessi lagasetning mun hafa til lengri tíma og ég tel að þeim spurningum hafi heldur ekki verið svarað hvernig vinna á á þeim uppsafnaða vanda sem skapast hefur innan heilbrigðiskerfisins vegna þessara vinnudeilna á undanförnum mánuðum. Það eru engin svör um það í frumvarpinu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið algjörlega þögull um með hvaða hætti menn sjá það fyrir sér. Og núna, þegar við horfum framan í það og þá staðreynd að þegar þessu lýkur blasa við sumarleyfi — þarf ekki einhvern veginn að manna vaktir í sumarleyfi? Hvert er planið? Á bara að skella hér á lögum og halda að allt verði í lagi? Auðvitað er það ekki þannig. Menn þurfa að taka á málinu með sómasamlegum hætti. Þetta er ekki rétt leið til þess. Menn þurfa að horfa á stóru myndina og reyna að átta sig á því með hvaða hætti þeir ætla að koma út úr þessu og þá með sterkt heilbrigðiskerfi inn í langa framtíð í huga. Þetta er ekki leiðin til þess.

Ég verð líka að segja að það er sorglegt að ríkisstjórnin skuli ákveða að gera þetta á þessum tímapunkti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og fleiri hafa nefnt það að í næstu viku er 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Hér verðum við með mikil hátíðahöld 19. júní. Í aðdraganda þeirra hátíðahalda ætlar þessi ríkisstjórn að setja lög á kjaradeilur stórra kvennastétta í landinu. Það er framlag þessarar ríkisstjórnar til þeirra hátíðahalda.

Virðulegi forseti. Það verður myrkur yfir þeim hátíðahöldum verði þessi lög að veruleika. Verkfallinu lýkur hugsanlega með þessum lögum, en deilunni mun ekki ljúka. Hún blasir enn þá við. Ég hef áhyggjur af þessari stöðu, sérstaklega í ljósi þess að við erum með fjöldann allan af gríðarlega hæfileikaríku fólki sem getur leitað sér starfa og framtíðar í öðrum löndum á mun betri kjörum og eru eftirsóttir starfskraftar þar. Ég held að ríkisstjórnin ætti að hafa meiri áhyggjur af því núna. Ég tel að hér sé verið að vinna skemmdarverk á heilbrigðisþjónustunni inn í langa framtíð.