144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er einhver að biðja um að fá svimhækkun á launum? Er sá hópur sem um er að ræða að óska eftir svimhækkun á launum í einu vetfangi? Það held ég ekki. Hér er verið að biðja um sanngjarnar kjarabætur. Menn eru líka að óska eftir því að við þá sé rætt. Það var ekki gert í aðdraganda þessara deilna. Það var ekki gert og þess vegna er þetta allt komið í hnút, vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að afsala sér samningsumboðinu til Samtaka atvinnulífsins og bíða, segja við okkur hér sem vildum ræða þetta að þetta kæmi okkur ekki við, það yrðu aðilar á vinnumarkaði sem leystu þetta. Menn vísuðu þessu frá sér. Með öðrum orðum, gerðu ekkert fyrr en bara í síðustu viku þegar búið var að semja á almennum vinnumarkaði, það var í síðustu viku. Hvað kemur þessi ríkisstjórn þá með? Með lög á deilurnar. Með lög. Það er niðurstaðan.

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, ég hef setið í ríkisstjórn, gerði það í fjögur ár. Þá komum við einu sinni með svona löggjöf hingað inn, það var við fordæmalausar aðstæður í kjölfar eldgoss og það lá fyrir að hér yrðu ekki flugsamgöngur til og frá landinu. Það var erfitt, mjög erfitt, en við stóðum líka í kjaradeilum á þeim tíma við heilbrigðisstarfsmenn og fleiri aðila, en það þurfti ekki lög á þá vegna þess að menn sömdu. Þessi ríkisstjórn er að koma inn í fjórða skipti með lagasetningu á tveimur árum. Þetta er mynstur, þetta er orðin aðferðafræði. Þetta er orðin leið ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) til þess að semja við sína deilendur.