144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og rökfasta og ekki nema von að hæstv. heilbrigðisráðherra hnígi mjög í sæti sínu og glúpni undir slíkri ræðu.

Ég rifja það upp af því ég sat hérna 2004 að þá taldi þáverandi ríkisstjórn nauðsynlegt að ljúka verkfalli grunnskólakennara með lagasetningu. Þá var það hæstv. forsætisráðherra sem flutti það frumvarp. En sem kunnugt er eins og við höfum séð í dag þá þorir hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki að flytja þetta mál sem hann að öðru jöfnu hefði átt að gera vegna þess að andlag frumvarpsins eru stéttir sem er undir fjórum ráðherrum. Gæti verið að það birti ákveðinn veikleika á þessu frumvarpi? Ég hef skoðað þetta mál töluvert vel eftir það kom í hendur mínar og mér sýnist sem ríkisstjórnin muni eiga mjög erfitt með að verja þennan gerning fyrir erlendum dómstólum. Þarna er verið að skerða samningsfrelsi og stjórnarskráin heimilar það, en þó aðeins með mjög þröngum skilyrðum, m.a. þarf að hlíta ákveðnum skilyrðum mannréttindasáttmála Evrópu. Í tiltekinni grein hans, sem er lykilgrein þar, kemur fram að réttur opinberra starfsmanna á þessu sviði getur sætt takmörkunum og ríkari en réttur starfsmanna á almennum markaði, en það er sérstaklega tekið til að það eru liðsmenn hers og lögreglu, eða stjórnarstarfsmenn. Hverjir eru þeir? Þeir sem beita opinberu valdi. Þá er ekki að finna í þessum hópi.

Í dómi sem féll fyrir sex árum kom fram að það væri mjög erfitt af ríkisstjórn að setja fram lög sem bönnuðu öllum að fara í verkfall. Það er nánast það sem er að gerast hér. Hér eru 17 stéttarfélög undir. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.

Telur hv. þingmaður að það sé kannski ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra þorir ekki að leggja nafn sitt (Forseti hringir.) við þetta vonda plagg? Hann veit að hann hefur vondan málstað að verja, þótt reynslan (Forseti hringir.) sýni að vísu að hann er yfirleitt mjög góður í því.