144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála því mati að þetta er fullkomið klúður. Það hefur algjörlega skort á heildarsýn af hálfu ríkisstjórnarinnar á kjaramál. Hún hefur algjörlega skilað auðu í því að reyna að fyrirbyggja þetta ástand á vinnumarkaði, að reyna að koma á heildarumgjörð utan um kjarasamninga. Ég er líka alveg sammála því að það er kjarkleysi af hæstv. forsætisráðherra að bera ekki fram þetta mál. Þetta er áhugaverð kenning hjá hv. þingmanni vegna þess að þetta lítur vissulega út eins og brot á stjórnarskrárbundnum rétti, eins og brot á mannréttindum, sérstaklega þegar málið er sett í það samhengi að þarna á gerðardómur þriggja einstaklinga að ákveða ekki bara um einhverja einstaka kjarasamninga heldur er honum í raun og veru falið umboð til þess að ákveða um ókomna tíð hvort þessir hópar, sinfónían, leikarar, hjúkrunarfræðingar, dýralæknar, lögfræðingar, hafi yfir höfuð rétt til þess að fara í verkfall einhvern tímann. Þannig er þetta frumvarp, þannig er þetta skrifað. Ef málið fer svona í gegn þá held ég að það falli fyrir dómstólum, a.m.k. lýsir sú hugmyndafræði sem þarna birtist stórbrotnu virðingarleysi fyrir þessum réttindum fólks, fyrir samningsréttinum.

Já, hæstv. forsætisráðherra er kjarklaus að mínu viti að leggja ekki fram þetta mál. Mér finnst einkennilegt hvernig ákveðið var hver ætti að leggja fram þetta mál. Þetta er auðvitað lagt fram af ríkisstjórninni, er stórmál og ætti að vera lagt fram af hæstv. forsætisráðherra. En ég vil hrósa þó tveimur ráðherrum sem hér sitja og málið varðar mjög mikið, það eru hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem sitja þó hér og hlusta á umræðuna. Málið varðar einkum og að mjög miklu leyti hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vona að ég heyri í þessum tveimur ráðherrum (Forseti hringir.) og við fáum innlegg þeirra í þetta mál.