144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra og gefa honum tækifæri á að leiðrétta helstu rangfærslur sem hann lauk ræðu sinni á að nefna.

Við vitum það og ég nefndi það í ræðu minni að það hefur verið ein af kröfunum sem settar hafa verið fram af hálfu BHM í þessari deilu að mikilvægt sé að styrkja sérstaklega rekstur heilbrigðisstofnana. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra beint út: Hvað hafa stjórnvöld verið reiðubúin að setja á borðið í þeim efnum?

Við vitum það líka og hæstv. ráðherra veit að aðgerða er þörf. Hann nefndi það hér að það mundi taka tíma fyrir heilbrigðiskerfið að jafna sig eftir þessi verkföll, og talaði um mánuði. En er ekki nær lagi að tala um lengri tíma nema einhverjar róttækar aðgerðir komi til til að byggja hér upp og hefja sókn í þessum málum? Mig langar að fá það á hreint því að hæstv. ráðherra segir: Hér hefur ýmislegt verið sagt og ekki allt rétt og ég vil gjarnan fá að leiðrétta hér rangfærslur. (Gripið fram í.) Endilega gerðu það. Komdu og segðu okkur hvað stjórnvöld eru reiðubúin að setja á borðið í þessum efnum. Ég bið líka hæstv. ráðherra að segja okkur hvaða forgangsröðun stjórnvöld sýna með því að boða hér skattalækkanir. Þegar er búið að boða skattalækkanir upp á 15–17 milljarða. Enn frekari skattalækkanir eru boðaðar. Hæstv. fjármálaráðherra heldur sérstakan fund í hádeginu í dag til að ræða þau mál. Hvar ætlum við að fá peningana til að fara í þá uppbyggingu sem svo sár þörf er á? Við virðumst alla vega oft vera sammála í þessum sal um að svo sannarlega sé þörf á slíkri uppbyggingu en um leið erum við að fórna tekjum. Það er ekki rétta leiðin til að nálgast þessi mál. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra út í forgangsröðunina, hvort hann telji mikilvægara að halda áfram að reyna að afla einhverra tekna til að geta byggt upp. Eins og við vitum öll hefur verið erfiður tími í heilbrigðiskerfinu. Er rétta forgangsröðunin að fara í enn frekari skattalækkanir, herra forseti?