144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég held að kostnaðarþátttaka sjúklinga sé mál sem þurfi að ræða sérstaklega og þróunina sem hefur orðið í þeim efnum, en mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra: Eigum við von á einhverri áætlun um aukningu framlaga til heilsugæslunnar eins og hann nefnir hér, til heilbrigðisþjónustunnar sem heild sem getur nýst til að leysa þessi mál sem eru í algerum hnút? Hér er verið að leggja til frest, skamman frest fyrir aðila til að ná samningum. Eigum við von á einhverju útspili frá stjórnvöldum um aukin framlög til þessara þátta?

Mig langar líka að ítreka spurningu mína frá því áðan hvernig við nákvæmlega sjáum fram á að ríkissjóður verði aflögufær þegar helsta „mission“, svo ég leyfi mér að sletta, stjórnvalda virðist vera sú að afsala almenningi og ríkinu tekjum með skattalækkunarstefnu sinni eins og ég nefndi í ræðu minni. Við erum að horfa upp á lægri tekjur ríkissjóðs upp á 15–17 milljarða út frá því útspili sem kom hér síðast og boðað er áframhald. Er ekki réttara að reyna að byggja upp tekjugrunninn og reyna að standa undir þeirri uppbyggingu sem þörf er á?