144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að það eru stór dæmi undanfarna mánuði sem renna stoðum undir þá fullyrðingu hæstv. ráðherra að stjórnmálamenn margir hverjir fari illa með opinbert fé og hefði verið hægt að fara vel með opinbert fé í aðdraganda þessa ástands á vinnumarkaði til að reyna að fyrirbyggja þetta ástand.

Hæstv. ráðherra rakti það ágætlega hversu ömurlegt ástandið er og hættulegt á heilbrigðisstofnunum landsins út af þessum verkfallsaðgerðum. Ég mundi aldrei gera lítið úr því. En ég lít kannski svolítið öðruvísi á þetta. Ég hefði haldið að einmitt þetta hættulega ástand og þetta ömurlega ástand ætti að vera báðum aðilum alveg gríðarleg hvatning til að reyna að ná samningum vegna þess að ég held að það sé ekki þannig að það séu bara fulltrúar ríkisvaldsins sem sjái hið ömurlega ástand. Ég leyfi mér að fullyrða að fyrir engum sé ástandið jafn átakanlegt og átakanlegt að horfa upp á þetta ástand og fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir sem eru í verkfalli og hafa menntað sig í því að hjúkra fólki og sinna störfum í heilbrigðisþjónustu. Ætli þeim stéttum finnist ekki líka ömurlegt að horfa upp á þetta ástand? Það vill enginn vera í þessu. Þess vegna á þetta ástand sem skapast að vera báðum aðilum alveg ótrúleg hvatning til að reyna að ná samningum. Það á alltaf að vera lausnin. Ég óttast að hérna sé að myndast freistnivandi fyrir ríkisvaldið þegar menn umgangast lagasetningarvald af svona mikilli léttúð að menn segja hreinlega nei og fara svo bara í lögin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur hann gert til að reyna að hafa uppbyggileg áhrif á þetta ástand á vinnumarkaði? Hefur hann komið með eitthvert innlegg inn í þessar deilur við heilbrigðisstéttirnar í þessu ferli? Hver eru þau innlegg og hvernig hefur þeim verið tekið?