144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur bæði mýkt og fótafimi kattarins þegar hann dansar með orð hér um þingsalina og talar um það sem okkur öllum finnst, staðan er auðvitað þung og erfið og öll deilum við áhyggjunum. En það þýðir lítið fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og bera sig mannalega og berja í borðið og segjast ætlast til þess að deiluaðilar verði búnir að ná samningum innan þess tímaramma sem gefinn er í frumvarpinu. Til hvers nákvæmlega ætlast hæstv. ráðherra? Ætlast hann til þess að til dæmis heilbrigðisstéttirnar, sem eru í hópi þessara 17 stéttarfélaga, leggi niður rófuna og taki það og gleypi það sem samninganefnd réttir þeim? Er það þannig sem hann vill leysa þessa deilu? Eða vill hæstv. ráðherra kannski í krafti síns embættis og stöðu reyna að hnika samninganefndinni til þannig að hún bjóði meira? Er það ekki það sem vantar? Það dansar aldrei neitt par nema það séu tveir til í að dansa. Í þessu tilviki er það aðeins einn.

Ég verð líka að segja að mér finnst hæstv. ráðherra tala nokkuð mannalega þegar hann fer yfir stöðuna, en hann gleymir einu. Hann gleymir því að hann sjálfur skrifaði undir yfirlýsingu 5. janúar þar sem hann hét því að það kæmi meira fjármagn inn í kerfið. Hæstv. ráðherra lýsti því sem stefnu og skrifaði undir það með forsætisráðherra og ýmsum forsvarsmönnum úr heilbrigðisstéttinni þar sem sagt var að heilbrigðiskerfið ætti að búa við sambærilegan ramma hvað fjármuni varðar og er annars staðar á Norðurlöndunum. Það vantar allmikið upp í það og ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er þetta ekki tímapunkturinn til að standa við stóru orðin, hætta að láta mannalega en efna það sem hann sagði 5. janúar? Og til að rifja það upp ætla ég að skilja þetta hér eftir handa honum. [Þingmaður leggur blað í pontu.]