144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mig langaði að spyrja hann. Mér finnst svolítið skringileg þessi lög um að setja bann á tvö ólík félög. Það vita það svo sem allir að það er ólíklegt, ef t.d. hjúkrunarfræðingar reyna að reka í gegnum dómstóla bann á verkfall þeirra, að Félag hjúkrunarfræðinga vinni það mál. Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort honum finnist ekki skringilegt að í raun og veru séu ekki tvö frumvörp í staðinn fyrir eitt um að setja bann á verkfall út af því að þetta eru í eðli sínu frekar ólík félög. BHM er bandalag og er reyndar bandalag mjög margra ólíkra félaga. Þó svo að sinfóníuhljómsveitin sé mjög mikilvæg þá varðar það varla þjóðarhagsmuni að banna meðlimum hennar að vera í verkfalli. Mér finnst allt í kringum þessi lög mjög skrýtið og í raun og veru fordæmalaust. Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort hann deildi áhyggjum mínum yfir því að það sé verið að setja svona stórt net yfir ólíka hópa með þessari lagasetningu.

Ég ætla síðan út af skorti á tíma að spyrja hann annarra spurninga í næsta andsvari, en mér þætti gaman að heyra hans viðhorf gagnvart þessum vinkli.