144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Jú, þetta kemur einmitt inn á það. Þegar réttlætt er að taka verkfallsréttinn af fólki, sér í lagi ekki bara að réttindin séu til staðar heldur þegar fólk hefur tjaldað til og farið í aðgerðirnar, þá þarf réttlætingin fyrir því að grípa inn í að vera ofboðslega sterk. Heilbrigðisstarfsmenn og sinfónían eru náttúrlega engan veginn það sama. Ég meina, það er borðleggjandi. Það að grúppa þetta allt saman og reyna að vera með eina réttlætingu fyrir alla þessa aðila gengur ekki upp. Þetta er partur af því sem ég nefndi áðan, að þetta er illa unnið frumvarp. Það er illa réttlætt og það er óábyrgt. Varðandi hvað það er illa unnið þá er einmitt reynt að grúppa alla saman.

Svo hefur mér verið bent á möguleg brot á stjórnarskrá í þessu máli. Sá stjórnunarstíll að leggja til að gerðardómur, sem verður skipaður alfarið af dómstólum, skeri úr um málið gæti verið brot á sjálfri stjórnarskránni ef gengið er of langt í því að segja hvað gerðardómur megi veita deilandi aðilum, sem sagt frá ríkinu, þannig að menn verða að vera mjög varkárir þegar þeir skipa þennan gerðardóm. Svo er gerðardómurinn rammaður algjörlega inn í þann sama ramma og er í boði núna til heilbrigðisstarfsmanna, til deilandi aðila. Þetta er mitt fyrsta boð. Svo reynum við eitthvað að rífast um þetta í þinginu. Svo halda menn bara áfram.

Ég trúi ekki að þessi ríkisstjórn eigi eftir að gefa neitt eftir, nema það sé nógu mikill þrýstingur innan þingsins. Ég hvet þingheim til þess að gera allt sem við getum. Ég mun bara halda áfram að gera það.