144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt ákvæðið um gerðardóm sem mér finnst vera nánast kafkaíst og á mjög erfitt með að sætta mig við að fari í gegnum þingið óbreytt. Þar er í raun og veru verið að tryggja það með dagsetningu að t.d. hjúkrunarfræðingar muni ekki geta fengið kjarabætur á sama hátt og læknar og kennarar. Þetta er svo svívirðilegt að maður á eiginlega engin orð til að lýsa því hvað maður er hissa á því hvað þessi ríkisstjórn heldur að hún komist upp með.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái eða skilji hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að skapa hér öruggara og betra heilbrigðiskerfi þegar er verið að kippa undan mörgum, ekki bara í heilbrigðiskerfinu, áhuganum á að mennta sig og getunni til þess með þessari lagasetningu.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi tekið eftir því hvort reynt hafi verið að koma með einhverjar aðrar skapandi lausnir á þessari deilu, t.d. hvort komið hafi mjög afgerandi tillögur eða tilboð um að lækka lán hjá LÍN fyrst það er ekki hægt að hækka laun. Hefur eitthvað slíkt verið uppi á borðum? Ég hef nefnilega ekki tekið eftir því en hv. þingmaður er mjög athugull og kannski hefur hann tekið eftir einhverju sem ég hef misst af.