144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur fyrir löngu síðan komið fram að fyrir lá tilboð frá ríkinu áður en samningar tókust á almenna markaðnum. Það lá fyrir tilboð. Yfir samningalotuna hefur síðan ríkið hækkað sitt tilboð, það er alveg rétt, og að hluta til komu fram breytingar eftir að almenni markaðurinn náði niðurstöðu. En það er ekki verið að bjóða eingöngu og nákvæmlega það sama og gildir á almenna markaðnum enda stendur ríkið frammi fyrir á margan hátt allt öðrum og öðruvísi kröfum. Það er verið að biðja um ýmislegt í þessum kjaraviðræðum sem á ekkert við á almenna markaðnum þar sem menn t.d. sömdu fyrst og fremst og nær eingöngu um verulega hækkun lægstu launa og mildari launahækkanir þar fyrir ofan. Það á bara ekkert við í þessari samningalotu.

Hins vegar má segja að hvað varðar heildarumfangið þá skiptir máli að almenni markaðurinn leiði nema menn séu hér komnir að niðurstöðu um einhverja allt aðra aðferðafræði. Ég kalla eftir því að við tökum aðeins dýpri (Forseti hringir.) og alvörugefnari umræðu um vinnumarkaðinn og kjaradeilur en þá sem mér hefur þótt skína í hér í dag sem gengur bara út á það að ef ríkið gengur ekki að kröfum sem beint er að því þá séu menn ekki að standa sig.