144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já. Við hæstv. ráðherra erum nákvæmlega sammála um það en þessi rammi er ekki til staðar núna. Það hefði kannski verið hægt að setja þetta í meiri forgang hjá ríkisstjórninni, í alvöru, ég hef ekki heyrt röksemdir frá ráðherranum um að það hefði ekki verið hægt. Ég er búinn að biðja um skýringu á hvers konar verkbann hefur verið í gangi o.s.frv. til að ná því fram sem var sagt í upphafi kjörtímabils en ég hef ekki fengið það. Ég legg kannski fram beiðni um skriflegt svar frá ráðherra til að fá það fram hvað raunverulega hefur verið gert en það hefur ekki verið gert og sá rammi er ekki til staðar. Það var samið við lækna, frábært, það var forgangsraðað þar í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, í starfsfólkið. Hvers vegna er hæstv. ráðherra ekki tilbúinn til að gera það aftur núna með heilbrigðisstarfsfólkið sem er í verkföllum núna? Ef við gerum það ekki, þá erum við að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfið í hættu og afgerandi vilji landsmanna er að við eigum ekki að gera það.