144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel að aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hafi verið eitt mikilvægasta úrlausnarefni þessarar ríkisstjórnar og hún gekk hreint til verks. Hún gekk fram í samræmi við það sem boðað hafði verið og það hefur sýnt sig nú þegar að það hefur skipt miklu fyrir heimilin.

Ég ætla að lýsa almennri furðu á umræðunni hér um aðgerðir til hjálpar heimilunum hvort sem er með aðgerðum sem eru til þess fallnar að lækka hreinlega skuldabyrði og þar með greiðslubyrði heimilanna eða skattalækkunum sem eru ekkert annað en aðgerðir til að styðja við fólk sem á erfitt með að ná endum saman, að draga úr byrðum fólks með lægri sköttum og gjöldum. Hvað erum við að ræða um hér annað en það hvernig er að draga fram lífið á Íslandi? Hvernig er að lifa af þeim starfskjörum sem mönnum standa til boða? Er það ekki það sem við erum að ræða hér? En í hvert sinn sem menn ræða um skatta og þá stefnu okkar að reyna sem mest að draga úr sköttum og gjöldum, þá segja menn: Nei, nei, þetta má alls ekki. Þetta er rangur tími, vitlausar áherslur. (Forseti hringir.) Alveg með ólíkindum. Og ég verð að segja að það sama gildir um húsnæðisaðgerðir okkar. Að styðja við fólk með það að standa í skilum, það er kjaramál.