144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað áhyggjuefni að í raun og veru hafi menn aldrei ætlað sér neina stóra hluti í þessum efnum eins og ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára segir til um sem var lögð fram á þinginu og er hér til umræðu. Þar kemur fram að ef meiri kaupmáttaraukning verður hjá opinberum starfsmönnum en 2% þá verði að skera niður á móti. Þetta eru skilaboðin og þar hefur legið fyrir hver vilji ríkisvaldsins var til kauphækkana hjá opinbera geiranum.

Varðandi sjúklinga, auðvitað eru allir sammála um að vilja hafa öryggi sjúklinga í fyrirrúmi og þess vegna viljum við að þær stéttir sem sinna sjúklingum fái laun sem endurspegli þá miklu ábyrgð sem fylgir því að vinna á heilbrigðisstofnunum landsins. Ég vil vekja athygli á því að það eiga að vera til listar um neyðarmönnun, viðvarandi listi hjá fjármálaráðherra. Það væri fróðlegt að vita hvort sá listi sé virkur í svona ástandi eða hvort vanti eitthvað upp á það.

Ríkið er búið að afsala sér núna á þessum missirum sem ríkisstjórnin hefur verið við völd hátt í 30 milljörðum. Það mætti nú ýmislegt gera til að bæta kjör almennings í landinu og heilbrigðisstétta og annarra stétta með 30 milljörðum. En þetta er auðvitað bara birtingarmynd þessarar grjóthörðu hægri stefnu sem eirir engu og er í raun og veru að brjóta niður velferðarsamfélag sem við höfum verið að reyna að byggja upp hérna í gegnum tíðina, vinstra og félagshyggjufólk og verkalýðshreyfingin í landinu, hvort sem er í almenna geiranum eða opinbera (Forseti hringir.) geiranum og verið er að mylja þetta allt niður. Fólk verður bara að horfast í augu við það að (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn ætlar ekkert að gera til að bæta kjör þessa fólks.