144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Félagar í BHM hafa nú verið í verkfalli í tíu vikur og hjúkrunarfræðingar hafa verið í verkfalli í um í tvær vikur, verkfall þeirra hófst 27. maí. Verkföllin hafa sannarlega haft víðtæk áhrif, enda sinna þessar starfsstéttir mjög mikilvægum störfum og er algerlega ljóst að verkföllin hafa áhrif á líf mjög margra í landinu og eru alvarleg og þess vegna mikilvægt að stjórnvöld leggi sig fram við að leysa þau með almennilegri lausn en gefist ekki upp á málinu með því að skella á lögum eins og gert er nú.

Menntun starfsstéttanna er þess eðlis að þær eru eftirsóttar um allan heim. Þannig er íslenska ríkið sem vinnuveitandi í samkeppni við önnur lönd um starfskrafta fagstéttanna, bæði innan BHM og Félags hjúkrunarfræðinga.

Í dag talaði ég við hjúkrunarfræðing sem fór yfir það með mér hvernig ástandið er í þeirri stétt. Í fyrsta lagi sagði hún mér að á næstu þremur árum megi 900 hjúkrunarfræðingar hætta vegna aldurs en á sama tíma muni ekki nema um 450 útskrifast. Vandinn í stéttinni hefur líka verið vegna þess að hjúkrunarfræðingar eru að mennta sig út úr stéttinni, bæta við sig námi og mennta sig í burtu frá hjúkrunarfræðinni. Hjúkrunarfræðingurinn sagði mér að í hverri viku fengi hún sent atvinnutilboð frá Noregi. Hún hafði farið og verið í rúmar tvær vikur og fengið milli 500–600 þús. kr. útborgaðar. Þar vann hún á sjúkrahúsi þar sem aðbúnaður var afskaplega góður, hún fékk frítt far út og fría gistingu, vaktirnar voru ýmist sjö og hálfur tími eða tíu tímar og hún kom heim með rétt tæpar 600 þús. kr. fyrir þetta tímabil.

Hérna eru hins vegar byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga rétt rúmar 300 þús. kr. og við sjáum hvernig samkeppnisstaðan er um þessa starfsstétt. Hjúkrunarfræðingurinn sagði við mig: Noregur einn gæti ráðið okkur allar í vinnu og fleiri til. Hún sagði að lagasetningin á verkfallið núna væri byrjun á einhverju hræðilegu í íslensku heilbrigðiskerfi. Henni var mikið niðri fyrir og ég skynjaði alvarleika málsins. Hún fór yfir aðbúnaðinn sem heilbrigðisstéttirnar vinna við og sagði mér meðal annars að á þeirri deild sem hún starfaði hefði verkfallið engin áhrif, það væri engin breyting vegna þess að mönnunin á deildinni væri svo slæm fyrir, deildin væri undirmönnuð og væri rétt við þau öryggismörk sem ríkið setur, öryggismönnun, lágmarksmönnun til að halda öryggi sjúklinga, þannig var ástatt á deildinni fyrir verkfall svo að verkfallið hafði ekki áhrif. Sú mynd sem hjúkrunarfræðingurinn dró upp er mjög alvarleg og það er afar mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því að það eru ekki aðeins launin sem skipta máli heldur aðbúnaðurinn einnig, sem þarf að vera í lagi þannig að þessar eftirsóttu stéttir úti um allan heim fáist til að vera á Íslandi og vera fólkið sem gerir gott heilbrigðiskerfi að því sem það á að vera hér heima.

Mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki átta sig á þessu. Mér fannst ég finna fyrir skilningsleysi, bæði algeru skilningsleysi hjá hæstv. utanríkisráðherra hér fyrr í dag en einnig hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í ræðu hans áðan og það er vissulega áhyggjuefni.

Ég vil fá að lesa úr tölvupósti sem þingmenn fengu sem rammar inn þessa stöðu. Í tölvupóstinum stendur þetta, með leyfi forseta:

„Um tíu ára skeið hafa forsvarsmenn stéttarfélaga þessara heilbrigðisstarfsmanna bent á að flótti heilbrigðisstarfsmanna til annarra landa ógni getu okkar til að viðhalda þjónustugetu eigin heilbrigðiskerfis. Þeir flýja vegna aðbúnaðar og launastefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum og þeir koma ekki aftur. Við erum að verða þjóð sem fyrst og fremst menntar framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk fyrir aðrar þjóðir, þjóðir sem sannarlega þekkja og virða hæfni og þekkingu íslensks heilbrigðisstarfsfólks og greiðir þeim laun sem þeir geta lifað af, tryggir þeim þann aðbúnað í starfi að þeir geti sinnt því án þess að gera sjálfum sér og fjölskyldu sinni óafturkræft tjón vegna óeðlilegs álags, tækjaskorts, hás vaktahlutfalls, vaktaóreglu og mikillar fjarveru frá heimili.“

Þingmenn eru síðan hvattir í þessu tölvuskeyti til að lýsa yfir vilja til að vinna að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, sýna að hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafi ástæðu til að starfa á Íslandi og vinna að lausnum og uppbyggingu í kerfinu.

Mér finnst að þarna séu skilaboð sem við eigum að taka alvarlega en ekki hlaupa frá málinu með því að setja á lög. Það er skammtímalausn sem mun hafa, ef að líkum lætur, aukaverkanir til lengri tíma sem eru afar slæmar.

Í fylgiskjali með því frumvarpi sem við ræðum er umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, skrifstofu opinberra fjármála. Þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins þá hafa launakröfur tiltekinna stéttarfélaga innan BHM og FÍH verið umtalsvert meiri en þær launahækkanir sem samið hefur verið um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins. Þá hafa verkfallsaðgerðir þessara félaga haft í för með sér efnahagslegan skaða og verulega röskun á opinberri þjónustu svo sem hvað varðar þjónustu á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Með frumvarpinu er verið að afstýra því ástandi sem ríkt hefur undanfarnar vikur á vinnumarkaðinum. “

Mér finnst þarna verið að segja beinum orðum, sem hefur reyndar verið sagt hér í aðdraganda þess að lögin og frumvarpið komu inn í þingið, að þessar stéttir hafi í raun ekki verkfallsrétt. Fyrst þurftu þær að bíða í verkfalli eftir að almenni vinnumarkaðurinn gerði samninga og síðan þegar þeir eru komnir má ekki semja við BHM eða FÍH nema á sömu nótum. Kröfur þeirra skipta ekki máli vegna þess að lausnin verður að vera í takt við það sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Síðan heldur áfram, með leyfi forseta, í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu:

„Ljóst þykir að væri fallist á þær launakröfur sem hafa verið uppi mundi það hafa veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs sem þyrfti að mæta með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs eða skattahækkunum, auk þess sem slíkir samningar mundu að líkindum hafa neikvæð áhrif á þegar gerða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.“ Þarna er þetta rammað inn.

Mér finnst hreinlega verið að segja að búið sé að taka verkfallsréttinn af BHM og hjúkrunarfræðingum, að ef þessar stéttir fái kjarabætur, þessar stéttir sem vinna hjá ríkinu, muni það leiða til þess að það verði hér skattahækkanir eða samdráttur í þjónustu og guð má vita hvað. Á sama tíma er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að boða skattalækkanir sem munu koma í kjölfar þess að stöðugleikaskatturinn fer að tikka hér inn, að mér skilst. Af hverju hafa þær krónur sem fara í umferð með skattalækkunum einhver önnur áhrif á efnahagskerfið en þær krónur sem ríkisstarfsmenn fá í launaumslagið sitt? Getur hæstv. forseti útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að það skiptir máli hvaðan krónurnar koma úr ríkiskassanum, hvort þær koma í gegnum skattalækkanir eða í gegnum laun ríkisstarfsmanna og það sé þá mismunurinn á því hvaða áhrif þær hafa í hagkerfinu? Þetta eru líka skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn sendi ríkisstarfsmönnum eða starfsmönnum í BHM og hjúkrunarfræðingum. Þegar kjaradeilan stóð yfir og ljóst að hún væri komin á vondan stað var lögð fram 1. apríl ríkisfjármálaáætlun. Þar stendur berum orðum á bls. 35: Ef kjarasamningarnir sem gerðir verða við ríkisstarfsmenn gefa meira en 2% kjarabætur umfram verðbólgu verður skorið niður, þá verður störfum fækkað og það verður skorið niður í velferðarkerfinu á móti.

Þetta fannst mér vera kaldar kveðjur til ríkisstarfsmanna sem voru með lausa samninga og voru í kjaradeilum og hafa staðið með þjóðinni í þeim miklu hremmingum og þeirri miklu dýfu sem við tókum hér eftir efnahagshrun. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hafa þessar stéttir staðið sig og haldið uppi þjónustu og núna er hótunin frá hæstv. ríkisstjórn í ríkisfjármálaáætluninni: Ef þið fáið kjarabætur munum við þrengja enn frekar að ykkur. Þetta eru sannarlega kaldar kveðjur, frú forseti.

Þannig er stefna þessarar hægri stjórnar en auðvitað verður að berjast gegn henni. Mér er sagt að tilboð ríkisins til hjúkrunarfræðinga kosti um 1 milljarð og 800 millj. kr. en að samningurinn við lækna, sem eru helmingi færri en hjúkrunarfræðingar, hafi kostað 4 milljarða kr. Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd skil ég ósköp vel stóru kvennastéttina, hjúkrunarfræðinga, að þeir geti ekki sætt við slíkt. Að sjálfsögðu bera þau sig saman við samninga sem ríkið hefur gert við aðrar stéttir.

Nú mun frumvarpið ganga til nefndar og nefndin mun fara yfir þessar tölur og samanburðinn og reyna að finna út úr því hvort það sé í rauninni nauðsynlegt að setja á þessi lög, því að aðeins má taka verkfallsréttinn af fólki með lögum ef brýn nauðsyn er til og þjóðarhagur er undir.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan hef ég áhyggjur af því að þessi lagasetning muni leysa einhvern vanda til skamms tíma en til lengri tíma verði hún til þess að vinna enn frekari skemmdir á heilbrigðiskerfinu þegar við þyrftum mun frekar að leggja fjármuni í að byggja það upp.