144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það vera nokkuð ljóst að stjórnvöldum gengur það ekki til að styrkja heilbrigðiskerfið sem við eigum í dag, sem er í svo mikilli þörf fyrir einmitt uppbyggingu og styrkingu, hvort sem við lítum til þess að bæta kjör starfsfólksins eða vinnuaðstöðu þess, t.d. með því að byggja nýjan spítala. Þó svo að vissulega hafi verið settir fjármunir í það þá er ekki nærri nóg að gert. Heilbrigðiskerfið var svelt fyrir hrun. Hér var forgangsraðað þannig að minna var skorið niður í velferðarmálunum á árunum eftir hrun en einmitt nú þegar við erum að rétta úr kútnum og þjóðin sér að það er svigrúm. Það eru að verða til einhverjir peningar í þessu samfélagi sem við hér inni eigum að taka ákvarðanir um hvernig eigi að forgangsraða en þess sér ekki stað í þessu frumvarpi að það eigi að fara að forgangsraða fyrir heilbrigðiskerfið. Það virðist alla vega ekki vera vilji til að mæta þeim kröfum sem starfsfólk hefur uppi um kjarabætur.

Á sama tíma erum við auðvitað að lesa um það í fjölmiðlum hvernig sé verið að byggja upp einkarekna kjarna í heilbrigðisþjónustu. Er það þangað sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leiða okkur og heilbrigðiskerfið okkar? Þegar komið er fram með svona lagafrumvarp um leið og hæstv. heilbrigðisráðherra boðar skattalækkanir, (Forseti hringir.) hvað getur maður þá annað en talið að hér eigi að færa heilbrigðiskerfið í einkarekstrarform?