144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög hlynntur einkaframtakinu. Samt sem áður þegar kemur að þjónustu þar sem maður vill ekki fjölga kúnnum, maður vill raunverulega fækka þeim, skapa kringumstæðum þar sem kúnnunum fækkar — eins og varðandi fangelsi, við viljum ekki fjölga kúnnum þar heldur fækka þeim, og þegar kemur að sjúklingum þá vill maður fækka þeim sem eru sjúkir — þá er varhugavert að vera með mjög víðtækan og sterkan hagsmunaaðila í samfélaginu sem hefur hag af því að fjölga þeim. Meginmarkmið fyrirtækja, skilgreint af föður nútímastjórnunar, Peter Drucker, er að búa til og halda í kúnna þannig að ég geld varhuga við þessu. Noam Chomsky bendir á að alltaf þegar eigi að fara í einkavæðingar þá sé nánast undantekningarlaust og við sjáum það alls staðar í heiminum byrjað á því að grafa undan þjónustunni sem ríkið veitir. Kannski er þetta leiðin, ég veit það ekki. Þess vegna spyr ég þingmanninn og athuga hvort hún geti gefið okkur betri innsýn í það.

Það er alveg ljóst að það er svigrúm í ríkisfjármálum fram undan og þó að það væru 3,4 milljarða kr. hallalaus fjárlög og vantaði 3 milljarða samkvæmt forsendum allra heilbrigðisstofnana þá voru samt sem áður ekki sendir peningar þangað. Hvernig talar hæstv. fjármálaráðherra? Á verkalýðsdeginum sagði hann það væri forgangsmál að aflétta sköttum á stóriðju, stóriðju sem er með skuldir sínar við dótturfélög eða móðurfélög sín erlendis þannig uppstilltar að hún þurfi að borga miklu minni skatt á Íslandi, nokkuð sem önnur ríki hafa mörg hver tekið fyrir. Það er forgangsatriðið. Hvað er forgangsatriði núna þegar kemur að svigrúmi í kjölfar losunar hafta þegar þeir peningar flæða inn í Seðlabankann? Hvað er forgangsatriði þar? (Forseti hringir.) Að lækka skatta. Forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar er ekki fyrsta flokks (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfi.