144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það að gera þennan svokallaða gerðardóm að umræðuefni. Án þess að ég sé einhver snillingur í því hvernig gerðardómur eigi að vera samsettur þá finnst manni það alla vega svolítið skrýtið og orka tvímælis að það sé ríkið sem eigi að skipa alla aðilana, þá þrjá aðila sem í honum eiga að vera og engin kvöð um að neinn af þeim aðilum sem eru í þessum kjaraviðræðum við ríkið eigi þar sæti, ekki frekar en ríkið vill, fyrir utan að svo sé búið að skrifa inn í lögin sjálf við hvaða tíma megi miða í kjarasamningum og að hér verði jafnframt að gæta stöðugleika í efnahagsmálum.

Telur hv. þingmaður, sem hefur oft gert að umræðuefni hér á þingi traust manna til ríkisins og er einmitt í flokki sem nýtur núna hvað mests trausts kjósenda, að með svona umbúnaði í lögum sé verið að auka traust almennings á ríkinu sem stofnun?