144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var svolítið áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á að enginn hefði viljað flytja málið eða hver hafi viljað flytja málið. Og það er svolítið áhugavert að hér er ráðherrabekkurinn tómur. Það situr vissulega einn, hæstv. utanríkisráðherra situr í hliðarherbergi, já og flott, þarna er annar, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er í hinu hliðarherberginu, en það breytir svo sem ekki því að ráðherrabekkurinn er tómur. (Utanrrh.: Þetta er nú ekki sanngjarnt.) (Gripið fram í: Ekki nema einn frá Vinstri grænum.) Við getum þá alla vega sammælst um að það er ekki mjög fjölmennt hér í salnum akkúrat núna til þess að ræða þetta mál.

Það sem mig langar að spyrja hv. þm. Jón Þór Ólafsson er um langtímaáhrifin af því að böðlast núna áfram og setja þessi lög á heilbrigðiskerfið. Tekur hv. þingmaður undir það með mér eða er hann mér ósammála í því að þetta geti reynst okkur ansi afdrifaríkt og þetta sé mjög slæmt, hreinlega hættulegt fyrir okkur sem samfélag? Ef ég á að gerast mjög dramatísk þá er mér hreinlega skapi næst að segja að hér séum við að reka nagla í líkkistu heilbrigðiskerfisins okkar.