144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tveir punktar sem hv. þingmaður benti mér á sem ég vissi ekki. Einn af þeim er varðandi samanburðinn, hversu mikið fé er notað í löndum OECD í heilbrigðiskerfið. Nei, ég var ekki búinn að finna þennan punkt. Hann er mikilvægur vegna þess að stjórnvöld hérna eru sífellt að tönnlast á því að þau hafi sett svo mikið í heilbrigðiskerfið, þau hafi forgangsraðað í heilbrigðiskerfið. Það hefur aldrei verið meira sett í heilbrigðiskerfið, við settum milljarð aukalega í heilbrigðiskerfið. Þetta er það sem tönnlast er á.

Þó að aldrei hafi verið meira sett í krónutölum í heilbrigðiskerfið þá vita allir sem búa á Íslandi að krónan kaupir ekkert mikið, hún kaupir ekkert mikið í dag. Það varð hér hrun, þannig að þó að aldrei hafi meira verið sett í krónum talið í heilbrigðiskerfið, ef við tökum þau verðmæti sem hafa verið sett í heilbrigðiskerfið þá yrði ég mjög hissa ef það hefur ekki áður verið sett meira í heilbrigðiskerfið eins og t.d. fyrir hrun þegar fékkst miklu meira fyrir krónuna. Þar fyrir utan var kerfið fjársvelt af því að hér varð hrun, afleiðingar þess stóðu í langan tíma og það er mikill uppsafnaður kostnaður þar sem þarf að takast á við. Og þar að auki er alveg skýrt og kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum allra heilbrigðisstofnana í landinu fyrir jól að það vantar 3 milljarða til þess að þeir geti veitt það sem að þeirra sögn er nauðsynleg heilbrigðisþjónusta. En fjárlög voru hallalaus um 3,4 milljarða þannig að þessir fjármunir voru til staðar. Þannig að það er alveg ljóst að stjórnvöld eru ekki að forgangsraða í heilbrigðiskerfið.

Varðandi spurningu til þingmannsins langar mig að spyrja hann hvort hann geti tekið saman fleiri þætti um þetta, ef hann hefur einhverja, þar sem ríkisstjórninni (Forseti hringir.) er hreinlega ekki treystandi. Þeir gefa loforð aftur og aftur og aftur varðandi heilbrigðiskerfið sem standast síðan ekki.