144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir það hvernig hann fór yfir ýmsar tölur sem skipta máli í þessu samhengi, t.d. það hlutfall af ríkisfjármálunum sem þyrfti að fara í heilbrigðismál til þess að við gætum borið okkur saman við hinar Norðurlandaþjóðirnar og verið með sambærilegt velferðarkerfi eða heilbrigðiskerfi á einhvern hátt, sem og þær hækkanir sem aðrir hópar sem samið hefur verið við á árinu hafa fengið.

Þegar samið var við lækna var mikil áhersla lögð á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og viljann til þess að styrkja það og bæta. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja skýringu á því hvað varð um þennan vilja. Af hverju verður ekki vart við hann í kjaraviðræðum nú? Þessi vilji var fyrir hendi þegar samið var við læknana en virðist ekki vera nú þegar semja á við aðrar stéttir sem starfa einnig í heilbrigðiskerfinu og auðvitað líka ýmsar aðrar stéttir. Það er helst samanburður heilbrigðisstétta sem ég er að spá í.