144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig rak í rogastans þegar yfirlýsingin var gerð 5. janúar. Undir hana skrifuðu fimm karlar. Hún var á milli ríkisstjórnarinnar, yfirstjórnar Landspítalans og Læknafélags Íslands. Í gegnum þetta plagg sem er í átta liðum gengur hin góða stétt lækna eins og rauður þráður.

Ég er þakklátur guði fyrir hvern þann mann sem vill gefa sig að læknisfræði vegna þess að það er ómissandi stétt, en það eru nokkrar aðrar stéttir sem í nútímahátæknivæddu samfélagi heilbrigðisgeirans eru jafn ómissandi. Læknar starfa til dæmis ekki nema hjúkrunarfræðingar séu til reiðu líka og hvorug þeirra stétta starfar að ákveðnum aðgerðum án geislafræðinga. Engin þessara stétta starfar ef ekki eru lífeindafræðingar. Þannig snýst tannhjólið og þannig verkar gangvirkið í flóknu samfélagi heilbrigðisgeirans á vorum dögum að hvert tannhjól grípur inn í annað. Saman myndar þetta heild. Í dag hefur þetta búið til eitt besta heilbrigðiskerfi á landinu. En ef eitt tannhjólið er ekki smurt þá ganga hin öll stirðlega líka. Það er það sem skiptir máli. Mér fannst þessi yfirlýsing, eins og ég skrifaði á heimasíðu minni á sínum tíma við ákaflega lítinn fögnuð hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og blaut tuska í andlitið á öðrum stéttum sem vinna á spítölunum.

Ég kann enga skýringu á því aðra en þá sem hefur legið í landi og við höfum alltaf barist gegn, a.m.k. við tvö, að það er (Forseti hringir.) eins og kvennastéttirnar séu miklu minna metnar. (Forseti hringir.) Ég get ekki lesið út úr þessu annað en kerfislæga fordóma (Forseti hringir.) þar sem kemur því miður fram viðhorf míns kyns, en ekki erum við allir jafn hressir í þessum efnum.