144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag fór stjórnarmeirihlutinn býsna harkalega fram í því að óska hér eftir kvöldfundi. Þá voru greidd atkvæði um það og stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn því, en það var knúið í gegn í krafti meiri hluta að við mundum funda í kvöld.

Ríkisstjórnin ákveður sem sagt að koma í dag með lagasetningu á verkföll, lagasetningu á kjarabaráttu ákveðinna hópa í samfélaginu og knýja það fram með kvöldfundi. Það sem gerist síðan er að hér er landsleikur, sem er frábært og ég vildi óska að ég væri á þeim landsleik en ég get það bara ekki vegna þess að ég er í vinnunni, og þá birtast í fjölmiðlum myndir af því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra sýna þinginu það mikla lítilsvirðingu og okkur sem hér vinnum og líka þeim hópum sem þeir ætla að taka verkfallsréttinn af (Forseti hringir.) að þeir eru mættir þar en við erum hér. Við fáum ekki einu sinni kvöldverðarhlé. Við höfum þurft að skreppa fram til að fá okkur að éta.

Þetta er ekki boðlegt (Forseti hringir.) og þessir menn sýna þinginu og okkur hér aftur og aftur lítilsvirðingu og ég tel að það þurfi að eiga við þá samtal.