144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Í einfeldni minni hélt ég að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, væru að undirbúa samninga við minni hlutann um þinglok. En nei, þeir leggja fram frumvarp sem er gerræðislegt, setja lög á verkföll um morguninn, setja þingið og landsmenn alla í uppnám á miðdegi og fara svo á fótboltaleik að kveldi á meðan við fjöllum um mjög alvarlegt mál, sem því meira sem maður skoðar það, því óttaslegnari verður maður af því að þessi lagasetning er stórhættuleg. Það er alveg ljóst að við verðum að gera allt sem við getum, þingheimur allur, líka þingmenn meiri hlutans, til að lagfæra þá ágalla sem eru á lagafrumvarpinu og ég vona að þeir örfáu (Forseti hringir.) þingmenn meiri hlutans sem hér hafa verið hafi hlustað á málflutning okkar sem erum að finna nýja og nýja hnökra á því.