144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt þegar við horfum upp á að þeir sem er mest í mun að ná þessu í gegn á kvöldfundi skuli ekki einu sinni láta svo lítið að vera hér og ræða málið. Menn hafa heldur ekki komið hingað og rökstutt málið nægilega vel. Við höfum kallað eftir því að ráðherrarnir sýni okkur hvers konar áætlanir þeir eru með um framtíðaruppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, að horfa til lengri tíma. Nei, menn ákveða frekar að vera í skammtímasjónarmiðunum. Þessi lagasetning ber þess merki að menn horfa eingöngu til skemmri tíma. Hættan er sú að til lengri tíma muni þetta leiða til þess að hér eigi ekki eftir að vera nægjanlega mikill fjöldi fólks til að standa undir okkar góða heilbrigðiskerfi. Við erum með heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða sem getur starfað hvar sem er í heiminum. Við verðum þess vegna að gæta að því að aðbúnaður þess og laun séu samkeppnishæf við það sem best gerist annars staðar. Það er ekki þannig í dag, það er bara ekki þannig. Síðan er verið að sýna þessu fólki lítilsvirðing með svona lagasetningu en fyrst voru þessir hópar, áður en til þessarar lagasetningar kom, látnir vera í verkfalli í allt að tíu vikur. Menn ræddu varla við þá vegna þess að búið var að framselja samningsumboðið til Samtaka atvinnulífsins. Það var alltaf sagt: Heyrðu, við bíðum eftir almenna vinnumarkaðnum. Þetta voru svörin.

Virðulegi forseti. Þetta lagafrumvarp sýnir okkur líka að viðræðurnar voru sýndarviðræður. Menn ætluðu ekki að ná neinni niðurstöðu með þeim. Þeir ætluðu bara, með einum eða öðrum hætti, að láta það sem samþykkt var á almenna markaðnum gilda fyrir opinbera starfsmenn. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þetta gengur auðvitað ekki. Þetta frumvarp staðfestir að það átti aldrei að semja við ríkisstarfsmenn, það átti ekkert að gera það.

Það sem við sjáum líka í þessu frumvarpi er viðmiðunardagsetningin, þ.e. miðað er við og sagt að gerðardómur eigi að taka mið af því sem gerst hefur á vinnumarkaði eftir 1. maí síðastliðinn. Það segir líka að það átti aldrei að semja við ríkisstarfsmenn. Það sama á að gilda um þá. Menn ætla að reyna að troða því ofan í kokið á þeim, með hvaða hætti sem er og núna með lagasetningu, að þeir fái það sama og samþykkt var á almennum vinnumarkaði. Það hefði alveg eins verið hægt, eins og einhver orðaði það, að skrifa kjarasamninginn sem samþykktur var á almennum markaði í frumvarpið í staðinn fyrir að vera með einhverja sýndarmennsku og skrifa þar dagsetninguna sem miðar við þessa samninga. Það er eðlilegast að miða við þessa lotu samningaviðræðna og færa dagsetninguna aftur til 1. janúar. Það er miklu eðlilegra að miða við þann tíma vegna þess að annars hefðu menn alveg eins getað skrifað kjarasamning og sett lög þar að lútandi vegna þess að svigrúmið er ekki neitt.

Það sem angra mig líka í þessu máli, eins og aðrir hafa komið inn á, er samsetningin á gerðardómi. Það skiptir máli að því verði breytt svo að aðilar deilunnar geti tilnefnt sinn fulltrúa.

Svo verð ég að nefna það sem mér þykir líka sorglegt við þetta allt saman. Það er eins og búið sé að ákveða að það sama eigi að gilda um ríkisstarfsmenn og á almenna vinnumarkaðinum þegar kemur að hækkununum sjálfum. Er þá ekki eðlilegt, og við höfum verið spurð að því, að menn horfi líka á upphæðirnar og reyni að jafna laun þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðinum og ríkisstarfsmanna þegar kemur að sérfræðingum? Það er eitthvað sem menn þurfa að horfa til og menn þurfa líka að horfa á krónutölurnar í því efni.

Að lokum ætla ég að segja þetta, virðulegi forseti: Lítilsvirðingin sem verið er að sýna þeim hópum sem hafa verið í verkfalli í hátt í tíu vikur er alger af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það blekkir enginn með því að láta fólk halda að einhverjar kjaraviðræður hafi verið í gangi og menn hafi verið að reyna að mæta þessum hópum allan þennan tíma. Á sama tíma geta menn ekki vísað frá sér ábyrgð (Forseti hringir.) og sagt: Við ætlum að taka mið af því sem gerist á almenna markaðnum (Forseti hringir.) og bíða eftir því sem gerist þar og koma síðan korteri eftir að þeim lýkur með lög á deilurnar (Forseti hringir.) og skrifa nánast í lögin kjarasamningana sem voru samþykktir á almenna vinnumarkaðnum. Það skal enginn segja mér að ríkið hafi meint eitthvað með þessum viðræðum.