144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, velkominn í Pírata. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa kosningaræðu fyrir Pírata, það er ánægjulegt.

En ég vil segja varðandi gerðardóminn, það er mjög mikilvægt, að gerðardómur hefur ákveðnar forsendur lagðar fyrir sig og það er að finna [Þingmaður yfirgefur ræðustól.] í frumvarpinu. Það skiptir svo sem engu máli hver er í gerðardóminum heldur er ákvörðun gerðardóms á þennan veg, og ég hvet þingmanninn til að hlusta vel á:

„Gerðardómurinn skal við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála.“ — Sem ég átta mig ekki alveg á hvað er.

Það skiptir því svo sem engu máli hverjir eru í gerðardómi af því að búið er að segja gerðardómi hvað hann á að gera. Ég er ekki að lýsa vantrausti á þá aðila sem munu sitja í gerðardómi heldur það sem stendur í lagafrumvarpi þessu. Það er megingagnrýni mín á þessa framkvæmd gerðardóms í þessu þingmáli.

Síðan kemur fram í 3. gr. frumvarpsins.

„Komi aðilar vinnudeilunnar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála.“

Það hefur komið fram að gerðardómur er í raun og veru að framfylgja vilja ríkisins í þessu máli en er ekki hlutlaus sáttanefnd, þannig að mér finnst svolítið mikilvægt að hafa það í huga, og það hefur í raun og veru ekkert með stefnu Pírata að gera um gagnsæi.