144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði einfaldlega ekki að það skipti engu máli hversu mikil verðbólgan yrði í kjölfar slíkra samninga. Ég sagði að ef það kostaði smáverðbólgu þá yrði bara að hafa það. Menn mega ekki alltaf nota verðbólgu sem afsökun fyrir því að hækka ekki laun, það er helst það sem ég er að reyna að segja.

Sömuleiðis fylgir hér í umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga að það er undanþágulisti, það eru veittar undanþágur í neyð. Það er heilt ferli í kringum það að passa að líf og limir séu ekki í húfi. (Gripið fram í.) Sömuleiðis sagði ég í ræðu að ég er alveg reiðubúinn að skipta um skoðun, ég get alveg skipt um skoðun eftir þessa umræðu. Þetta er 1. umr. af þremur, nefndarstörf fara fram að loknum þessum fundi og ég er í þeirri nefnd, hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þannig að það er ekkert útséð um þetta. En sönnunarbyrðin er alltaf á herðum þess sem vill brjóta á réttindum eins og félagafrelsi og það veit hv. þingmaður mætavel og gæti sjálfsagt haldið langa og góða og fallega ræðu um það allt saman, að sönnunarbyrðin hljóti að vera hjá hinu opinbera í þessu tilfelli.

Eins og ég sagði í ræðu minni þá skil ég mætavel þau rök að þetta sé brýn nauðsyn og ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði, það getur verið að það sé rétt, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Það kemur bara í ljós eftir því sem umræðunni vindur fram. En jafnvel þó að við gefum okkur að þetta sé brýn nauðsyn, að þetta sé réttlætanlegt, og það var nú það sem ég var helst að reyna að koma að í minni ræðu, virðulegi forseti, þá er þetta ekki skynsamleg lausn. Það er það sem ég er að segja. Þetta mun ekki bæta þann skaða sem er þegar er orðinn eða mun verða að mínu mati. Þetta er óskynsamlegt jafnvel þó að þetta sé lögfræðilega réttlætanlegt, sem ég segi bara að er ekki útkljáð enn þá. Við erum í 1. umr. og ég áskil mér fullan rétt til þess að skipta um skoðun eða öllu heldur að leyfa yfirvöldum að axla þá sönnunarbyrði sem við hljótum öll að krefjast að sé fullnægt þegar gengið er á hvers konar frelsi eða réttindi fólks í landinu.