144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að nota tækifærið í andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þar sem hann beindi einni eða tveimur spurningum til mín, að svara þeim og nota einnig tækifærið til að þakka fyrir þessa umræðu í dag.

Ég minni á að það er ekki verið að taka verkfallsréttinn af neinum. Þetta er alltaf erfið ákvörðun. Við erum að beina þessu í farveg þar sem menn geta samið á næstu rúmu tveimur vikum og jafnvel þó að menn komi síðan saman þá hafa þeir sex vikur innan gerðardómsins að finna lausnir þar sem þeir geta lagt fram það sem til heilla horfir. Ég vona svo sannarlega að sá frestur muni nýtast þessu fólki, samninganefndunum og öllum aðilum sem að þessu máli koma, til að finna sameiginlega lausn því að það er hin ákjósanlegasta leið.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að ekki væri komið neyðarástand sem gerði að verkum að grípa þyrfti inn í af því að hann vísaði hér til yfirlýsingar landlæknis um að stjórnvöldum væri nú orðið skylt að taka í taumana með einum eða öðrum hætti. Telur hann ekki neyðarástand í heilbrigðiskerfinu og annars staðar, samanber verkföll sem varða matvælaframleiðslu, dýravelferð, á lögfræðisviðinu o.fl.?

En af því að hv. þingmaður beindi þeirri fyrirspurn til mín af hverju ég flytti þetta mál þá sagði ég það hér í inngangi mínum að það varðaði í það minnsta fjögur fagráðuneyti. Þetta er sameiginlegt frumvarp ríkisstjórnarinnar. Það var einnig sameiginleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fela mér að hafa framsögu. Ég held að það skýri málið fyllilega. Þetta er grafalvarlegt mál sem ríkisstjórnin tekur í sameiningu á.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að það sé grafalvarlegt ástand í samfélaginu og við getum ekki (Forseti hringir.) horft lengur upp á það án þess að grípa til einhverra aðgerða.