144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ríkisstjórnin yrði ekki dæmd fyrir stjórnarskrárbrot eða brot á mannréttindasáttmála Evrópu þó að hún mundi á einhverju stigi málsins telja sig knúna til að fara fram með lagagerninga til að binda enda á verkföll heilbrigðisstétta. Hins vegar tel ég að það sé grafalvarlegt mál með hvaða hætti málum er komið eins og núna. Ég dreg ekki í efa að það er alvarleg staða innan heilbrigðisgeirans.

Við skulum rifja upp hvernig sú staða kom til. Hvernig var það þegar BHM-verkfallið hófst? Sýndi þá ekki hæstv. ríkisstjórn algerlega skýrt að hún hafði engan hug á því að semja. Hvernig var staðan þá? Hæstv. fjármálaráðherra var á Flórída. Formaður samninganefndarinnar var í Myanmar. Það liðu margir dagar áður en tókst að kalla saman fund. Ríkissáttasemjari, sem þá var kominn undir blálok síns ferils, lýsti því opinberlega yfir og hafði aldrei gert það áður að það væri til einskis að kalla saman fundi vegna þess að ríkið hefði ekkert sýnt. Efnislega var það það sem hann sagði.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið hafi ekki ætlað sér að semja og hafi vitandi vits sett málið í þessa klemmu og hafi ætlað sér að ljúka því með einhvers konar lagagerningum þar sem stéttarfélögin sem undir væru yrðu í grundvallaratriðum skikkuð til að taka meira og minna blóðhráa niðurstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þetta held ég og hef svo sem sagt áður.

Svo þakka ég hæstv. ráðherra fyrir hreinskilnina, til að segja það algerlega skýrt, að hafa af styrkleika sinnar lundar tekið að sér að bera kóngsins járn og arbeið því að aðrir hæstv. ráðherrar sem það stóð nær lögðu ekki í það.