144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Í fyrsta lagi er rétt að þessi félög boðuðu verkfall en þau voru rekin til baka af félagsdómi og það er ekki búið að endurboða þau, þ.e. verkfallið, eða hvað þá að þau séu komin til framkvæmda, þannig að við erum að samþykkja lög á einn heilagasta rétt launamanna í landinu til að fyrirbyggja verkfall. Það er orðið býsna langsótt.

Hins vegar varðandi sameiginlegu kröfurnar. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að lagðar hafa verið fram sameiginlegar kröfur, en það var tekið mjög skýrt fram og kom vel fram í morgun í nefndinni að upphaflega fóru félögin af stað með sínar eigin kröfur. Síðan var það meðal annars að ósk ríkisins að reynt var að samræma þessar kröfur og koma fram sem einn aðili, enda var því lofað að sérákvæðin yrðu skoðuð sérstaklega á eftir. Nú erum við að fara í gerðardóm og við erum að fara með hjúkrunarfræðinga og BHM í gerðardóm. Annar hópurinn styður stofnanasamning en hinn ekki. Hvernig ætla menn að leysa úr því í gerðardómi? Það er engin leið út úr þessu nema með samningum. Og farið að snúa ykkur að því hæstv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að skaffa fjármagn til þess að það sé hægt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Klappað á þingpöllum.]