144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi ólögmætið. Hér er vitnað til hvaða félög eru undir. Þá kom það aðeins fram á fundi nefndarinnar varðandi t.d. dóm í sjómannaverkfallinu og þá aðila sem höfðu ekki verið í verkfalli að það var dæmt ólögmætt af hálfu ríkisins að setja lög þar um. Það hlýtur að vera það sama í gildi nú, ekki hefur lagabálkurinn breyst hvað það varðar. Ég tala nú ekki um ef þetta fer eitthvað lengra að hér séu undir félög sem hvorki hafa boðað verkföll né eru í verkfalli, að af þeim sé tekinn rétturinn með þessum hætti. Ég tel því einsýnt að félögin láti á það reyna. Það er eitt af því sem kom fram á fundi nefndarinnar í morgun og meiri hlutanum var bent á dómafordæmi Hæstaréttar í greinargóðu áliti frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ég held því að lögin komi til með að verða dæmd ólögmæt hvað þetta varðar. Ég skil eiginlega ekki eftir þær athugasemdir sem fram hafa komið í þessum álitum að fólk ákveði ekki að gera breytingar á því sem er augljóst. Það er búið að fella dóma um sambærilega hluti. Það er ekki einu sinni haft fyrir því. Það er álitið að þetta sé nægjanlegt af því að þessir 17 aðilar eru í samfloti, þó að það hafi verið skýrt tekið fram að þeir væru í samfloti um stóru myndina en ekki um einstaka atriði innan hvers samnings. Það kom mjög skýrt fram.