144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær skattalækkanir sem boðaðar hafa verið varðandi samningana á almenna markaðnum, ef ég hef skilið þá útreikninga rétt, munu koma sér best fyrir þann hóp sem er á svipuðum tekjum og hjúkrunarfræðingar hafa í meðaltalslaun.

Hv. þingmaður talaði um auðlindirnar, að ekki væri hægt að lækka skatta fyrr en við færum að taka meiri gjöld af auðlindum landsins. Ég vil spyrja, hvort það sé þá rétt skilið hjá mér: Er millistéttin þá í huga hv. þingmanns ein af þeim auðlindum sem staðið hafa undir þeim efnahagslegu aðstæðum sem við höfum verið í? Á skatturinn þá áfram að vera svona hár á þeirri stétt til þess að sækja auðlegðina þangað á meðan ekki er hægt að sækja hann í auðlindirnar?

Við hv. þingmaður vorum saman á fundi fyrir nokkrum dögum þar sem sveitarfélag sagðist ætla að útrýma fátækt og lágum launum með því að nýta raforku, orkufrekan iðnað, og ég held ég geti tekið undir það. Þetta hlýtur líka að tengjast þessari umræðu. Það kom fram, á fundum allsherjar- og menntamálanefndar í morgun, að það hafi verið byrjað að vinna eftir þessu norræna módeli síðasta árið og það væri líklega grundvöllurinn að þeim stöðugleika sem við byggjum við í dag og þeirri lágu verðbólgu sem verið hefur. En aðilar voru ekki alveg sammála um hvenær ætti að byrja að fara þessa nýju leið til að halda stöðugleikanum við.

Hv. þingmaður er að tala um bága stöðu margra. Ef við náum ekki að halda stöðugleikanum þá hlýtur það að koma verst út fyrir þá sem minna hafa milli handanna. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ef matvöruverð og húsnæðiskostnaður hækka, út af því að við náum ekki að halda stöðugleika, hlýtur það að koma sér verst fyrir þá sem hafa minnst á milli handanna.