144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:04]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það getur verið að það komi illa við þá stétt, ég veit það ekki. En fyrir hvern er stöðugleikinn á Íslandi, fyrir hvern hefur hann verið undanfarin ár? Ég átta mig ekki alveg á því. Auðvitað viljum við hafa stöðugleika en við viljum líka hafa ánægt starfsfólk í heilbrigðisstéttinni. Það getur verið að þessar skattalækkanir komi sér vel, en ég held að launahækkanir séu betri. Þau eru að fara fram á leiðréttingu á launum sínum þannig að þau séu til samræmis við laun annarra og að menntun þeirra verði metin til launa.

Nú hafa margir sagt að við séum að mennta allt of mikið hér á Íslandi, ég er ekki sammála því. Þessi umræða um skatta er dálítið erfið en mér finnst, eins og ég sagði í svari við hv. þingmann, að við eigum ekki að lækka skatta á meðan staðan í samfélaginu er eins og hún er, á meðan við erum með alla grunnþjónustu nánast í molum, því að við verðum einhvern veginn að fá peninga til að reka þetta samfélag. Og við eigum kannski að skoða betur skattalöggjöfina því að það er fullt af fólki sem kemst upp með það, sem hefur nóga peninga á milli handanna, að borga enga skatta og fær meira að segja borgað til baka frá ríkinu. Það er alþekkt.

Millistéttin — já, hún er sko auður, hún er einhver öflugasta auðlind sem við eigum, það er mannauðurinn, og við erum á góðri leið með að eyðileggja það allt saman. (VilÁ: Með háum sköttum.) Með háum sköttum? Nei, það er ekki þannig.

Aftur á móti má deila um það hvað við eigum að fá fyrir skattinn okkar. Í samfélögum eins og Danmörku, hvað fær fólk fyrir skattinn þar? Við eigum að byggja upp gott og öflugt kerfi, skattkerfi, og ekki síst á auðlindirnar. Þá getum við lækkað skattana á fólkið í landinu og rekið gott samfélag. Þetta snýst um það. Við verðum einhvern veginn að reka samfélagið og það gerum við með sköttum. Við gerum það ekkert öðruvísi, það vita það allir.