144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal alveg fúslega viðurkenna það að ég er ekkert rosalega vel að mér í þeim lagasetningum sem hafa verið gerðar, og verkfallsbaráttu, jú, ég tók náttúrlega þátt í því áður fyrr, verkfallsbaráttu, en ég man ekki eftir því. Árið 2004 voru gerðir kennarasamningar, þá held ég reyndar að gerðardómi hefi verið gefið frjálst með tímalengdina. En manni finnst það svolítið skrýtið, þetta ákvæði, að gefa gerðardómi sem skipaður er af Hæstarétti — nú ætla ég ekki að segja — ég treysti því og veit að Hæstiréttur skipar óvilhalla og góða menn eða góðar manneskjur í þennan gerðardóm, vonandi. En það hefur þó líka komið fram í umræðum, eins og kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í morgun, að þeir væru að leggja til að binda verkfallsrétt til jafnvel fjögurra ára, og þá fær þetta fólk ekkert að fara í verkfall eða að berjast fyrir launum sínum sem er mjög alvarlegt.

Það kom líka fram í máli sumra nefndarmanna að þetta mundi aldrei verða þannig, það mundi aldrei reyna á það og þetta mundi aldrei verða það langt að það mundi brjóta á rétti. Við erum náttúrlega að brjóta á rétti með að setja lög, en auðvitað treystir maður því, af því að ég veit að þessi lög verða samþykkt hérna á eftir, að það verði sanngjarnt. Og auðvitað vildi ég helst af öllu að breytingartillaga okkar í minni hlutanum yrði bara tekin gild og haft yrði eitt ár. En það kom líka fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar áðan að þeir hafa tíma til að semja til 15. ágúst, eins og hann sagði, en getum við treyst því? Ég veit ekki, ég er ekki bjartsýnn á það vegna þess að þeir hafa haldið 24 fundi og ekkert hefur gerst.