144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Mig langar að árétta hér í annað sinn í þessari umræðu það meginskilyrði sem fram kemur í 3. gr., eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans og ég lýsti í ræðu minni þegar ég flutti það, að við ákvarðanir um laun félagsmanna samkvæmt 1. gr. og önnur starfskjör skuli gerðardómur hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Síðan eru talin upp í greininni önnur atriði sem eftir atvikum koma til skoðunar. Það er skilningur meiri hlutans svo að það komi skýrt fram hér í þriðja skipti í þessari umræðu að þetta sé meginskilyrðið.