144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Setjum okkur rétt sem snöggvast í spor eða sæti þeirra ráðherra sem stjórna stefnumótun þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar. Prófum að setjast aðeins í þeirra stóla. Það er kannski óþægileg tilhugsun en við þurfum ekkert að gera það lengur en svona mánuð. Fyrir mánuði síðan, 11. maí, eða kannski nokkrum dögum seinna, sátu þeir á ríkisstjórnarfundi eftir að bréf barst til velferðarráðuneytisins frá landlækni, eitt af þremur bréfum um ástandið í heilbrigðiskerfinu sem ríkisstjórnin hefur á síðustu mánuðum setið á ríkisstjórnarfundum og rætt. Í fyrsta bréfinu segir embætti landlæknis að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Ímyndið ykkur að þið sitjið á ríkisstjórnarfundi, þið sitjið í sætum ráðherranna, stjórnið stefnumótun í þessu landi. Þetta er það sem þið sjáið. Ha? Ókei, vó. Hvað segirðu? Landlæknir segir að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk sem hægt er að tryggja öryggi sjúklinga. Ókei. Jafnframt segir í bréfinu:

„Verkfallsaðgerðum verður að ljúka hið fyrsta og undanþágur verður að veita án tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu. Embættinu er þó vel ljóst að aðgerðir sem binda endi á verkfall án þess að samningar náist leysa ekki vanda heilbrigðiskerfisins þegar til lengri tíma er litið. Ef til þess kæmi þurfa stjórnvöld að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um að samningaviðræðum verði haldið áfram í þeim tilgangi að skapa viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins.

Þetta eru skilaboðin frá landlækni fyrir mánuði síðan. Það er komið hættuástand í heilbrigðiskerfinu.

Svo líða dagarnir. [Þingmaður bankar í ræðupúlt.] Eruð þið að telja? Tvær vikur. 26. maí, það er einn dagur í verkfall hjúkrunarfræðinga. Þá fær ríkisstjórnin annað bréf. Í þessu tilfelli er það heilbrigðisráðherra sem fær bréfið og kemur með það á fund ríkisstjórnarinnar. Ég minni á að þið sitjið áfram í sætum fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Í því bréfi segir: (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja hv. þingmann að virða þær reglur sem gilda í ræðustóli, bæði hvað varðar meðferð málsins, þingmálið er íslenska, og jafnframt hvernig hv. þingmaður notar ávarp varðandi aðra þingmenn og ráðherra.)

Einmitt, af því að það er það sem er mikilvægt. Takk, forseti.

Af því að hér var rennslið truflað aðeins skulum við aftur setja okkur í spor hæstvirtra ráðherra sem stjórna stefnumótun í landinu. Það eru 15 dagar frá því að þið vissuð að það væri hættuástand í heilbrigðiskerfinu og að lög á verkföll eða lög án samninga, að stöðva verkföll án samninga, væri ekki langtímalausn. Það eru tvær vikur síðan og þið vitið að verkfall hjúkrunarstarfsmanna hefst á morgun. Þið fáið aftur bréf. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rík áhersla er lögð á alvarleika málsins og hversu brýnt er að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi þeirra sem til heilbrigðiskerfisins leita. Það ástand sem getur fljótt skapast nái verkfall hjúkrunarfræðinga fram að ganga getur valdið óbætanlegu tjóni og skaðað heilbrigðisþjónustuna og þá sem þjónustuna nota verulega, bæði til skamms tíma og lengri tíma litið.“

Landlæknir er búinn að segja ykkur fyrir tveimur vikum síðan að það er ekki langtímalausn, það er engin lausn að setja bann á verkfallið. Hvað fer í gegnum hausinn á ykkur ef þið eruð í þessari stöðu? Þið vitið að það er svigrúm til að semja nógu ríflega þannig að heilbrigðisstarfsmenn geti gengið að samningum. Þið vitið að það er svigrúm á fjárlögum ríkisins. Það er svigrúm í ríkissjóði. Og þið vitið líka að landsmenn vilja forgangsraða skattfé sínu í heilbrigðiskerfið, 90% landsmanna, óháð flokkum, efnahag, aldri, kyni, kjördæmi. Þið hugsið þá: Bíddu, hvað sögðum við fyrir kosningar? Jæja, það skiptir kannski ekki máli, við lofum ykkur aftur einhverju fyrir næstu kosningar, það er ekki aðalatriðið hverju við lofuðum fyrir síðustu kosningar. En hvað sagði alla vega okkar eigin flokkur?

Landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins er alveg skýr, með leyfi forseta, „að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi“. Það sem nefnt er fyrst er örugg heilbrigðisþjónusta.

Landlæknir er búinn að segja að það sé hættuástand í heilbrigðiskerfinu. Það er brýnt og áríðandi verkefni. Það ógnar öryggi heilbrigðiskerfisins sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins sagði að ætti að setja í forgang með skattfé landsmanna.

En hvað ef þú ert hæstv. forsætisráðherra? Þessu lofaði Framsóknarflokkurinn, með leyfi forseta:

„Framsókn leggur ríka áherslu á að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Það er ljóst að það verður brotthvarf innan stéttarinnar ef ekki er samið, þetta leysir ekki langtímavandann og það verður brottfall ef sett verða lög án þess að semja við heilbrigðisstarfsmenn. Það er hættuástand.

Það er enn þá 26. maí og daginn eftir hefjast verkföll hjúkrunarfræðinga, fleiri heilbrigðisstarfsmenn fara í verkfall. Það er hættuástand í heilbrigðiskerfinu. Hvað fer í gegnum hugann á ykkur? Hvað fer í gegnum hugann á ykkur um það hvert þið ættuð að forgangsraða fé skattgreiðenda? Hvar ættuð þið að vera að forgangsraða? Í alvöru, hvað fer í gegnum hugann á ykkur þegar þið sitjið í þessum stólum?

Áfram tikkar. [Þingmaður bankar í ræðupúlt.] Fleiri dagar. Það er kominn 4. júní. Hjúkrunarfræðingar eru búnir að vera í verkfalli í viku. (Gripið fram í.) Og landlæknir, líklega hræddur og örugglega sorgmæddur eins og við flest, sendir aftur bréf, núna stílar hann það á alla ríkisstjórnina. Hann nefndir það sama og í fyrri bréfum og reynir að vera skýrari í orðum, kannski heyra stjórnmálamennirnir ekki, þeir sem stjórna stefnumótun í landinu. Hann segir: Verkföllum verður að ljúka tafarlaust ef ekki á illa að fara. Það ástand sem hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna, bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.“

Einum eða öðrum hætti. Einn hátturinn, leiðin sem ríkisstjórnin vill fara núna, er að setja lög á verkfallið en landlæknir sagði fyrir mánuði síðan að það væri engin langtímalausn. Hvað fer í gegnum hausinn á ykkur? Prófið aftur að setja ykkur í þennan stól. Þið sitjið þarna, þið hafið þetta vald, hvað fer í gegnum hausinn á ykkur vitandi allt þetta og vitandi það að þið getið farið aðra leið? Þið getið forgangsraðað fé skattgreiðenda eins og skattgreiðendur vilja, í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Þið getið farið að kosningaloforðum ykkar, þið getið farið að stjórnarsáttmálanum, þið getið farið að því sem ykkar eigin flokkur segir í landsfundarályktunum um að forgangsraða skattfé, þið getið náð samningum. Það eina sem það gerir er að það kostar, kannski 4 milljarða, það kostar eitthvað en það er svigrúm fyrir það og það vilja það allir. Allir nema þið.

Og þið ráðið. Það eru tvö ár í kosningar og heilbrigðiskerfið er enn þá fyrsta flokks, vitið þið það? Eða það var það alla vega á síðasta ári samkvæmt þeim stöðlum sem landlæknir benti mér á að hann notaði. Í 2013-skýrslunni segir að allir hafi talið að í kjölfar efnahagskreppunnar mundi heilbrigðiskerfið á Íslandi fara niður en svo var ekki. Það gerðist ekki, það fór ekki niður þrátt fyrir kreppuna, þrátt fyrir hrunið fór heilbrigðiskerfið ekki niður. Allir „indicatorar“, með leyfi forseta, eða staðlar voru grænir, sem þýðir fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, allir grænir eftir hrunið.

Það eru tvö ár í kosningar. Ef þessir staðlar eru farnir niður þá mun það verða þessari ríkisstjórn mjög dýrkeypt.