144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir mundi skýra út fyrir mér hvaða glundroða og efnahagsóróa það mun valda í samfélaginu ef til dæmis þeir tveir hópar sem ég nefndi áðan mundu fara í verkfall. Ég er ekki alveg viss um að það skapi einhvers konar fyrirstöðu gagnvart því að við getum haldið uppi allsherjarreglu í samfélaginu. Ég tel ekki.

Það sem skiptir þó máli fyrir mig að vita er hvort nefndin sem fór höndum um þetta mál hefur með einhverjum hætti fengið tryggingar fyrir því að farið verði að þeim tilmælum sem landlæknir kveður svo fast að orði um í niðurlagi minnisblaðs síns til ríkisstjórnarinnar. Landlæknir skilur það mætavel og óttast að þegar svona gerningur bindur enda á verkfall kunni svo að fara að ákaflega mörgum innan stéttarinnar eða viðkomandi stéttarfélags finnist það eins og kaldur sjóvettlingur í andlitið. Við höfum heyrt það og hv. þingmaður, eins og ég, fengið um það ótal bréf frá þeim sem eru á hinum enda þessa máls um að viðkomandi hyggist segja upp. Landlæknir óttast atgervisflótta. Það óttast ég líka.

Þess vegna spyr ég: Hefur hv. þingmaður, sem formaður nefndarinnar, fyrir hönd nefndarinnar fengið tryggingar hjá hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir því að ef verkfallinu verður lokið án þess að samningar nái að leysa þann vanda sem það veldur, eins og segir í minnisblaði landlæknis, muni vera tryggt að samningar haldi áfram til þess að skapa vinnufrið? Ég óttast það miðað við hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið á stöðugum flótta undan þeim vandamálum sem eru vegna óróa (Gripið fram í.) heilbrigðisstarfsmanna undir forustu hans að það liggi ekkert skýrt fyrir í því efni. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði ekki giska skýrt hér í gær þegar hann var spurður um svipað. (Gripið fram í.)