144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir mjög málefnalegt svar. Ég spurði hana hvort það lægju einhverjar tryggingar fyrir því að hæstv. heilbrigðisráðherra mundi, ef svo færi að vinnudeilunni yrði lokið án samninga, sjá til þess að það yrðu viðræður áfram til að reyna eftir mætti að tryggja viðvarandi frið innan stéttanna. Svarið var nei. Það er ærlegt af hv. þingmanni. Ég hefði kosið að hv. þingmaður hefði getað svarað mér jákvætt. Það hefði verið örlítið öryggi, meira öryggi, ef það lægi algjörlega fyrir að það væri einbeittur vilji fagráðherrans til að reyna að leggja sitt af mörkum til að ná því sem landlæknir kallar viðvarandi frið. Ég er ekkert viss um að það sé hægt. Staðan er einfaldlega þannig að það er órói í þessum stéttarfélögum. Þeim finnst sem þeim hafi verið gefið langt nef. Þær horfa auðvitað til þess að aðrir hópar, sem bersýnilega eru sterkari innan heilbrigðiskerfisins, hafa fengið hækkanir sem eru töluvert umfram það sem virðist hafa verið á almennum vinnumarkaði. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að þær stéttir, sem eru algjörlega jafn mikilvægar og læknar til þess að halda gangvirki heilbrigðiskerfisins á snúningi, fari fram á slíkar hækkanir. Mér finnst ekkert að því.

Það sem mér finnst verst í þessu máli er auðvitað hversu lítið ríkisstjórnin hefur teygt sig. Einhvern veginn hefur það legið ljóst fyrir, eiginlega frá upphafi, að ríkisstjórnin ætlaði sér ekkert að semja umfram það sem hún var búin að skammta fyrir fram. Það er nánast skrifað inn í þetta frumvarp, þótt yfirlýsingar hv. formanns hafi mildað það nokkuð í þessari umræðu.