144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil segja það í ræðu minni að ég hef þungar áhyggjur af því verði þetta frumvarp að lögum eins og meiri hlutinn á Alþingi hyggst leggja til. Ég hef áhyggjur af því í tvennum skilningi. Ég hef áhyggjur vegna þeirra starfsstétta sem nú er fyrirhugað að setja lög á. Hér er um að ræða stjórnarskrárvarinn samningsrétt, rétt sem er einnig staðfestur í mannréttindasáttmálanum og á að vera eins heilagur og mögulegt er í okkar samfélagi. Þetta er í fjórða sinn sem við hv. þingmenn á þessu kjörtímabili ræðum lagasetningu á einstaka hópa. Sem betur fer voru lagasetningar orðnar mjög fátíðar framan af 21. öldinni. Nú þegar efnahagsástandið er með þeim hætti að menn boða betri tíð þá er það í raun óendanlega dapurlegt að við séum í fjórða sinn að ræða lagasetningu og að þriðju lögin á verkfallsaðgerðir verði að veruleika á þessu kjörtímabili.

Ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Jóni Þór Ólafssyni sem ræddu áðan um afleiðingarnar til lengri tíma. Ég benti á það í ræðu minni í gær að við horfðum fram á skort á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu alveg óháð þessum aðgerðum. Við horfum framan í það að 900 hjúkrunarfræðingar geta farið að hefja töku lífeyris á næstunni, en einungis 450 útskrifast á sama tíma. Við horfum upp á skort á starfsfólki og hættan er sú að það, eins og hefur komið fram í fjölmörgum bréfum til okkar hv. þingmanna sem ég hef því miður ekki haft undan að svara, kann að velja sér starfsvettvang annars staðar. Það er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því hvert við stefnum í þessu máli því eins og kemur fram í erindi landlæknis, sem hv. þingmenn sem ég nefndi vitnuðu í, munu aðgerðir sem binda enda á verkfall, án þess að samningar náist, ekki leysa vanda heilbrigðiskerfisins þegar til lengri tíma er litið. Þær leysa ekki vandann til lengri tíma litið. Ég vona að hv. þingmönnum í meiri hlutanum sem hyggjast samþykkja frumvarpið sé ljóst að þetta leysir engan vanda til lengri tíma litið og kann jafnvel að auka á hann. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Það er mitt mat að þetta muni auka á þann vanda.

Ég verð líka að segja að ég hef áhyggjur af þessu í breiðara samhengi því eins og ég sagði í gær þá breytum við ekki kjarasamningamenningu í einu vetfangi. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að það þurfi að endurskoða ramma kjaraviðræðna, endurskoða það hvernig aðilar tali saman, endurskoða hlutverk ríkissáttasemjara. Ég segi já, ég er tilbúin að taka þá umræðu. Ég er tilbúin að ræða það hvernig við getum þokað okkur áfram í því, en sú umræða þarf að fara fram með gagnkvæmri virðingu og skilningi á stöðu ólíkra aðila og ég held að ítrekaðar lagasetningar á verkföll séu ekki til þess að greiða þá leið. Við ræddum um framtíðina fyrr í dag, formenn og talsmenn flokka á Fundi fólksins í Norræna húsinu, við áttum að ræða um framtíðina og Ísland 2030. Ég sagði þar og ég vil segja það hér að ég held að fram undan séu jafnvel sterkari hugmyndafræðileg átök en við höfum lengi séð, átök á vinnumarkaði, átök sem snúast um það hvernig við skiptum gæðunum. Við horfum á samfélag þar sem meiri auður hefur safnast á færri hendur á undanförnum árum og áratugum. Ísland er ekkert einsdæmi um það. Þó að tekjudreifing hafi orðið jafnari eftir hrun, bæði af utanaðkomandi orsökum en líka vegna aðgerða sem ráðist var í, til að mynda á skattkerfinu, þá tel ég að þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur bæði ráðist í og boðað, séu ekki til þess fallnar að auka tekjujöfnuð. Ég tel að við stöndum í þeim sporum þar sem við sjáum fram á vaxandi átök um nákvæmlega þetta, um misskiptinguna.

Við höfum gengið saman í gegnum sjö mögur ár þar sem flestar stéttir tóku á sig kjaraskerðingu með einhverjum hætti. Það var ekki auðvelt fyrir neinn. Nú förum við vonandi að horfa fram á betri tíð. Þá snúast átökin um það hvernig við ætlum að skipta gæðunum, hvernig við ætlum að skipta vextinum. Ætlum við að skipta honum með sanngjörnum og réttlátum hætti? Ætlum við að byggja þann vöxt á sjálfbærni? Ætlum við að horfa fram á veginn? Hvaða sýn ætlum við að hafa þegar við horfum fram á veginn? Ég óttast það að ef þetta er viðhorf meiri hluta þingsins í garð kjaradeilna, þannig að ítrekað hefur þurft að koma til lagasetningar, einhliða lagasetningar í þessu tilviki á starfsmenn hins opinbera, er það ekki líklegt til að auka sátt í þessu samfélagi. Það er ekki líklegt til að ná nokkurri sátt um það hvernig við skiptum þessum gæðum. Við getum horft til þess að hér hafa nýlega verið boðaðar skattalækkanir upp á 15–17 milljarða sem innspil í kjarasamninga á almennum markaði, á sama tíma og þau félög sem eiga í kjaradeilum krefjast þess að rekstur innviðanna verði styrktur. Þar hefur heilbrigðisþjónustan oftast verið nefnd, en önnur stéttarfélög sem hér eru undir eru líka hluti af innviðunum. Við horfum fram á veg þar sem fyrirhugað er að draga úr samneyslunni, lækka skatta, auka einkarekstur og spila harðan bolta við verkalýðshreyfinguna í landinu.

Herra forseti. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Við höfum fengið reynsluna á öllum þessum aðgerðum. Ég vitnaði til þess í ræðu minni í gær og ætla að ljúka ræðu minni í dag á því að það er búið að skoða og rannsaka afleiðingar slíkrar stjórnarstefnu sem við köllum nýfrjálshyggju í dagleg tali, í Bretlandi á 9. áratugnum. Ekki aðeins jók hún ójöfnuð, ekki aðeins jókst atvinnuleysi, hún varð líka til þess að velsæld samfélagsins og vöxtur varð minni en ella hefði orðið. Hv. þingmenn meiri hlutans mættu velta því fyrir sér, því allt eru þetta bitar í einu og sama púsluspilinu, hvort þeir hafi virkilega sannfæringu fyrir því að þetta sé leiðin sem þeir vilja fara með íslenskt samfélag, flokkar sem jafnvel hafa kennt sig við félagshyggju á einhverjum tímapunkti í sínu pólitíska lífi.