144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Bjartri framtíð erum á móti þessu frumvarpi vegna þess að við teljum það ósanngjarnt, illa undirbúið og illa unnið. Samningsfrelsið og verkfallsrétturinn eru afar mikilsverð réttindi sem stjórnvöld í réttarríki leggja sig fram við að virða mjög mikils í orði og í verki. Þetta frumvarp samræmist þeim skyldum afar illa. Hér stendur til að skerða mikilsverð mannréttindi margs fólks með einhvers konar furðulegri pakkaafgreiðslu. Ekki nóg með það, hér á að mismuna fólki með alvarlegum hætti. Allt er þetta gert og keyrt fram af hörku og án þess að reynt hafi verið að ná sanngjarnri niðurstöðu með samtali og samráði við fólk í góðri trú.

Þessi ríkisstjórn sýnir enn að samráð er ekki til í hennar orðabók. Hennar aðferð er hér sem fyrr að deila og drottna. Björt framtíð telur að þetta sé vont lagafrumvarp, eins og kom fram, og ósanngjarnt og greiðir atkvæði á móti því.