144. löggjafarþing — 130. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Landlæknir hefur bent ríkisstjórninni á tvo hluti á síðastliðnum mánuði. Annar er sá að það er hættuástand, það er ekki hægt að tryggja lengur öryggi sjúklinga. Við þessar kringumstæður hefur ríkisstjórnin setið í heilan mánuð. Hitt atriðið er að það verður að leysa þetta með einum eða öðrum hætti. Ein leiðin er að setja lög á verkföll en landlæknir er skýr; ef þetta verður stöðvað án þess að samningum sé náð þá er það ekki langtímalausn. Önnur leið er að sjálfsögðu sú að samningum séð náð — ekki á þann hátt að ganga að öllum kröfum eins og hæstv. fjármálaráðherra er alltaf að tala um, að sjálfsögðu ekki, það er ekkert gengið að öllum kröfum, en að gengið sé nógu vel að kröfum heilbrigðisstarfsmanna að þeir vilji vera hérna. Það er hægt að gera enn þá. Ríkisstjórnin hefur að vísu ákveðið að forgangsraða fjármunum skattgreiðenda í annað, en þá er það bara ljóst og verum heiðarleg með það. Þessi ríkisstjórn forgangsraðar ekki skattfé landsmanna í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi.