144. löggjafarþing — 130. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[19:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í rúmar tíu vikur hafa staðið yfir verkfallsaðgerðir BHM og síðan bættust hjúkrunarfræðingar í hópinn. Við höfum í þessum þingsal margoft óskað eftir umræðum um þau mál. Við því hefur ekki verið orðið. Samninganefnd ríkisins hefur verið send á fjölda funda, alltaf með sama tilboðið, því að ríkisstjórnin ætlaði ekki að semja. Nú hefur gerðardómi verið falin sú ábyrgð sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur treysta sér ekki til að axla. Þeim hefur verið falið heilbrigðiskerfið okkar og framtíð þess í ákvörðunum sínum um launakjör stóru kvennastéttanna. Fram undan er mönnunarvandi í þessu kerfi. Það er ástand sem enginn vill bera ábyrgð á. Ríkisstjórnin hefur nú afsalað sér þeirri ábyrgð.