144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lög á kjaradeilur.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er að verða ljóst hversu mikla ringulreið og uppnám á vinnumarkaði sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar og meiri hluta þings um helgina að setja lög á verkfall félaga í BHM og Félagi hjúkrunarfræðinga hefur haft. Við sjáum fréttir af uppsögnum hjúkrunarfræðinga. Við sjáum gagnrýni virtra lögfræðinga á þá staðreynd að þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt hér í síðustu viku að engin ástæða væri til að setja lög á verkfall meðan einhver gangur væri í samningaviðræðum er samt gengið svo langt í lagasetningunni að lögin taka til 12 félaga af 17 sem eru ekki einu sinni í verkfalli. Það eru ekki nema fimm af 17 sem eru í verkfalli. Af hinum er tekinn stjórnarskrárvarinn réttur til frjálsra kjarasamninga og til að láta reyna á kröfur í verkfalli.

Þess vegna hlýtur að þurfa að spyrja hæstv. ráðherra hvernig svona víðtækt inngrip samrýmist þeim yfirlýsingum hans að ekki væri ástæða til að grípa til lagasetningar á verkföll meðan gangur væri í samningaviðræðum. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera nú þegar afleiðingarnar blasa við, uppsagnir hjúkrunarfræðinga? Hæstv. ráðherra gekkst fyrir kjarasamningum við lækna sem fólu í sér umtalsverðar hækkanir á þeim grundvelli að það væri nauðsynlegt til að verja hagsmuni heilbrigðiskerfisins vegna þess að þetta væri mikilvæg starfsstétt. Það var allt satt og rétt, en öll þau sömu rök eiga líka við um hjúkrunarfræðinga og aðrar fjölmennar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að leysa úr þeirri klemmu sem hann er búinn að koma sér og þjóðinni í með því (Forseti hringir.) að hafa enga heildstæða stefnu í kjaramálum þegar kemur að heilbrigðisstéttum?